Ísold Vala Þorsteinsdóttir - Leiklist

Ísold Vala útskrifast frá Leiklist með mynd sína "Hið ósagða frelsi"

Hið ósagða frelsi

Skyggnumst inn í framtíðina, eða árið 2045, þar sem við kynnumst nýja íslenska samfélaginu. Stéttaskipting er nú meiri en áður. Elítan lifir gráu kassalegu lífi þar sem ekkert frelsi eða ástríða er til staðar, en fátæklingarnir eru hins vegar frjálsir á allan máta og lifa litríkari lífi. Við kynnumst henni Urði, sem er nýr forstjóri stærsta orkufyrirtæki Íslands, en hún virðist ekki tilheyra samfélaginu og fyrirlítur þennan endalausa vana sem er hennar líf. Hún vill losna úr fjötrum nútímans og úr greipum sinna innri skugga.

Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?

Fyrsta myndin sem ég fór á í bíó var “Kjúlli litli”, en man lítið eftir þeirri upplifun. Annars man ég eftir því þegar ég sá “Duggholufólkið” í fyrsta skiptið. Blá tómatsósa, draugur og ísbjörn, er hægt að hafa það betra?


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig við kvikmyndagerð er allt sem gerist á bak við tjöldin. Allt frá búningahönnun upp í klippiferlið. Allt sem gerir kvikmynd að kvikmynd. Man að alltaf þegar ég var búin að horfa á DVD mynd fór ég alltaf að kíkja hvort það væri hægt að sjá lítið myndbrot af öllu sem gerðist í framleiðsluferlinu.


Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég valdi leiklist því ég hélt það yrði góður grunnur. Var búin að vera á leiklistarbraut í framhaldsskóla og ákvað bara að halda því áfram. En eftir kannski tvær annir fór mig að gruna að ég væri á vitlausri braut, hefði frekar passað betur í framleiðslu. En ég sé ekki eftir því að hafa farið í leiklist, kynntist fullt af skemmtilegu fólki og fékk meiri reynslu í kladdann.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Það kom mér á óvart hvað fyrsta önnin og fyrstu verkefnin í skólanum skipta miklu máli. Allt fellur svolítið og stendur með því með hverjum þú lendir með fyrst í verkefnunum. 


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er björt. Ætla að vinna í heimildarmynd sem ég er búin að vera með í huga í langan tíma, skrifa handrit að annaðhvort leikritum eða stuttmyndum, auglýsa mig og mín verk hingað og þangað og svo má ekki gleyma að halda áfram að lifa því lífi sem maður kýs.