Jón Arnar Hauksson - Skapandi Tækni

Jón Arnar mun útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína "Helgispjöll"

Helgispjöll

Myndin fjallar um kærustupar sem fer í sumarbústað til að fá neista í sambandið, en lenda í mjög slæmri aðstöðu.


Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?

Fyrsta kvikmyndaverkefnið mitt var “Mitt litla skjól” sem er mynd sem fjallar um einhverfu og var útskriftarverkefni bróður míns frá Kvikmyndaskólanum. Ég var aðstoðarmaður við framleiðslu og eftir það gat ég ekki hætt að hugsa um kvikmyndagerðina og vildi finna mig í henni. 


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Ég er með bullandi ADHD svo að vinna í 12 tíma undir miklu álagi með skemmtilegu fólki er draumurinn, hver einasti dagur er mismunandi og ég get leyft mínu ADHD og mínum heila að vera frjáls í listinni.


Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég ætlaði fyrst í leiklistarnámið, en var kvíðinn fyrir því að ég myndi eyðileggja leiklistina fyrir mér með því að setja mig í box. En þar sem að ég var í rafvirkjanum og hafði smá reynslu af Premiere, þá ákvað ég að fara í Skapandi Tækni. Ég hélt að ljósadeildin myndi heilla mig mest, en síðan féll ég fyrir hljóðupptöku og fann mig þar. 


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Eitt sem kom sérstaklega á óvart var hversu mikilvæg samskipti eru í þessari vinnu og hversu langt það kom mér að spyrjast fyrir um og hlusta, opnaði huga minn mikið og gerði mig betri í öllu ferlinu. Og eins og bróðir minn sagði, á endanum erum við öll, sama hvaða deild, að vinna fyrir myndina og gera hana sem besta. 


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Mér sýnist framtíðin vera björt, ég stefni á að vera sound mixer og held ég muni ná því. Ég er alltaf til í að læra meira og daginn sem ég er hættur að vilja það, er dagurinn sem ég hætti að vinna í þessum bransa.