Knútur Haukstein, leikari úr KVÍ skrifar handrit, leikstýrir og leikur í mynd á leið á hátíð í Transylvaníu

Grínstuttmyndin Drakúla eftir Knút Haukstein Ólafsson og félaga hans í Flying Bus Productions, Arnór Elís Kristjánsson og Heimi Snæ Sveinsson hefur fengið boð um að taka þátt í International Vampire Film and Arts Festival í Transylvaníu í lok maímánaðar.

 

Ég útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands í desember á síðasta ári og hef aðallega verið að vinna síðan þá en ég reyni líka alltaf finna leiðir til að skapa eitthvað og vinna að einhverju sem tengist kvikmyndagerð.

 

Segir Knútur Haukstein en hann er einn af leikurum og leikstjórum myndarinnar auk þess að vera handritshöfundur.

 

Ég lék nýlega aukahlutverk í útskriftarmynd Sindra Valþórssonar á Handrit/Leikstjórn sem verður frumsýnd núna í maí og síðan erum við félagarnir í Flying Bus Productions að klára nýjan grínskets um Laugafisk og HB Granda hérna á Akranesi. Þannig að maður reynir líka að halda áfram að búa til sín eigin verkefni.

 

Þeir félagar sem stóðu að gerð myndarinnar Drakúla  mynda saman hóp sem þeir kalla, eins og áður segir Flying Bus Productions.

 

Við höfum verið að gera myndbönd síðan við kynntumst árið 2010. Sumarið 2014 kom ég með tillögu um að nýta sumarfríið okkar í að gera kómíska stuttmynd eða paródíu af kvikmyndinni “Dracula” (1931) eftir leikstjórann Tod Browning. Við horfðum saman á myndina og stúderuðum hana og síðan fór ég beint í að skrifa handrit. Myndin var skotin á fjórum tökudögum. Ferlið gekk óvenjulega vel og hratt fyrir sig og við skiptumst á að taka upp og leikstýra hvorum öðrum.

 

En hvernig kom þátttakan í hátíðinni í Transylvaníu til?

 

Ég er satt best að segja mjög hissa á því að myndin okkar hafi komist á þessa hátíð. Líkurnar voru ekki með okkur en myndin var gerð fyrir nánast engan pening og sá litli peningur sem fór í gerð myndarinnar kom frá okkur sjálfum. Við vorum þrír leikstjórar í fjögurra manna tökuliði, allir að leika hlutverk og tveir af okkur með tvö. Ég var sjálfur rétt ný byrjaður í Kvikmyndaskólanum á þessu tímabili þannig að ég var of feiminn til að nýta mér nokkur tengsl við skólann. Ég hafði þó bókstaflega engu að tapa þegar ég ákvað nýlega að senda myndina okkar á nokkrar hátíðir og hingað erum við komnir til Transylvaníu.

 

Knútur Haukstein er sem stendur á milli verkefna en notar tíman til að kynna verk sem þegar eru komin út.

 

Ég er í því ferli að reyna að koma myndunum mínum á hátíðir og það verður spennandi að sjá hvernig það fer. Þá er ég í viðræðum við ákveðna aðila um að gera tónlistarmyndband og það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. En ég vil nýta tækifærið og hvetja nemendur í Kvikmyndaskólanum og annað samstarfsfólk til að reyna að koma verkunum sínum á framfæri. Það getur oft verið erfitt og niðurdrepandi að reyna að búa til eitthvað úr engu en þetta “eitthvað” gæti ef til vill orðið að meiru ef maður hefur trú á því.

Dracula 1