Konni Gotta, útskrifaður frá Leiklist, leyfði okkur að forvitnast smá
Konni Gotta útskrifaðist frá Leiklist hjá Kvikmyndaskóla Íslands og skrifaði nýverið undir samning hjá Áttunni. Við náðum tali af Konna og fengum að forvitnast eilítið um hann, námið og framtíðina.
Ég fór í leikhús þegar ég var 7 ára á „Litlu Hryllingsbúðina“ og sá þar Stefán Karl leika tannlækninn ásamt nokkrum öðrum hlutverkum. Mér fannst þetta svo geggjað að ég ákvað þar að ég ætlaði að verða leikari þegar ég væri orðinn stór. Þessi hugsun breyttist aldrei og ég var alltaf trúðurinn í vinahópnum. Svo árið 2010 sótti ég um í leiklist í Kvikmyndaskólanum og þá var allt í einu gaman að vera í skóla
Kvikmyndagerð er magnað ævintýri og Konni hefur fundið sig vel í því
Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er hvað þetta er fjölbreytt starf. Ég elska að leika og skrifa efni og ég er svona maður sem get ekki verið fastur í einhverri rútínu, þess vegna er kvikmyndagerð eitthvað fyrir mig. Stefán Karl, Jim Carrey og Robert Downey Jr eru menn sem ég lít upp til. Þeir eru allir með ruglaða stjórn á líkamanum sínum og það heillar mig alveg rosalega
Námið er ekki auðvelt, en það er undir hverjum og einum að takast á við það af bestu getu
Ég þroskaðist rosalega í Kvikmyndaskólanum og mikilvægasta lexían sem ég lærði þarna var að taka áhættur, það er í lagi að mistakast ef maður lærir af því. Ég lærði líka að taka gagnrýni. Langaði svo að skalla Darren kennara í fyrsta skiptið sem hann sagði við mig að ég væri úti að skíta en svo fór maður hægt og rólega að taka þessu og þá gat maður unnið í því sem þurfti að vinna í
Fyrstu skrefin eftir námið voru kannski hæg, en breyting varð þar á nýverið
Þegar ég útskrifaðist úr Kvikmyndaskólanum 2012 ætlaði ég að vinna í 1 ár og safna mér pening svo ég gæti farið út í framhaldsnám, en það er meira en að segja það. Þegar maður er búinn að vera í skóla allt sitt líf og fær síðan þokkalegan pening upp í hendurnar er maður líklegri til að eyða honum strax heldur en að safna honum, það gerðist hjá mér. En ég vann sem bílstjóri bæði hjá MS og Papco, svo var ég oft bílstjóri í verkefnum inn á milli, eins og auglýsingum og svoleiðis þar sem það vantar alltaf fólk með meirapróf. Ég hef aðeins verið í uppistandi og verið veislustjóri á árshátíðum og svoleiðis. Lék í nokkrum auglýsingum og svo hef ég verið virkur á Snapchat. Hægt er að fylgjast með mér á Snapchat bæði á attan_official og konnigotta.
Síðan ég útskrifaðist er leiklist því miður bara búin að vera aukavinna fyrir mig, þangað til núna. Ég skrifaði undir samning í lok sumars hjá Áttunni og nú er vinnan mín drullu skemmtileg. Þarna fæ ég framkvæma hugmyndirnar mínar, leika, taka upp myndbönd, ferðast og margt fleira.
Ég á ennþá eftir að leika stórt hlutverk í bíómynd, leika á sviði og svo vera partur af því að gera áramótaskaupið, gefið mér 7 ár og þá verður þetta komið og ég farinn að einbeita mér að næstu markmiðum
Hér er einn af nýjustu þáttum Áttunnar, en í honum leika einnig Hafsteinn Vilhelmsson og Monika Orlowska, bæði útskrifuð frá Kvikmyndaskólanum og Dagur De´medici Ólafsson tók upp;
Því ég get það
Það er engin spurning að Konni á eftir að byggja hratt upp sinn feril og við óskum honum góðs gengis