Leiðtogafundurinn í Höfða loks kvikmyndaður
Paramount Television Studios hefur tilkynnt gerð þáttanna "Reagan & Gorbachev"
Paramount Television Studios, sjónvarpsarmur kvikmyndaframleiðandans Paramount, hefur tilkynnt að stórleikararnir og Óskarsverðlaunahafarnir Michael Douglas og Christoph Waltz muni leika aðalhlutverkin í þáttaröðinni "Reagan & Gorbachev" sem fjallar um leiðtogafundinn fræga milli leiðtoga stórveldanna Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Höfða árið 1986.
James Foley mun leikstýra þáttunum, en hann á að baki þáttaraðir á borð við "House of Cards" og "Billions", sem íslenskum sjónvarpsáhorfendum eru að góðu kunnar. Þættirnir eru byggðir á handriti B. Garida eftir frægri bók Ken Adalman um leiðtogafundinn, en hún ber heitið: Reagan at Reykjavik: Forty-Eight Hours That Ended the Cold War.
Leiðtogafundurinn í Reykjavík í október 1986 átti sér skamman aðdraganda og á svipstundu beindust augu allrar heimsbyggðarinnar að hinu gamla húsi Einars Benediktssonar við Borgartúnið. Höfði varð frægasta bygging landsins, enda er leiðtogafundurinn talinn marka lok kalda stríðsins.
Björn Ingi Hrafnsson