Leikarar úr leiklistardeild Kvikmyndaskólans í Skaupinu

Þrír útskrifaðir leikarar úr Kvikmyndaskóla Íslands tóku þátt í verkefninu sem allt snýst um yfir áramót, sjálfu Skaupinu.

Ekki eru allir leikarar svo lánsamir að komast að í Skaupinu og lék okkur forvitni að vita hvað tveimur af leikurunum fannst um þessa reynslu.Við höfðum samband við Önnu Hafþórsdóttur og Hafstein Vilhelmsson en Bylgja Babýlons sem við ræddum nýlega við var einnig skaupsleikari í ár.

Það var auðvitað mikill heiður að fá að vera með í Skaupinu. Það var mjög góð stemmning á setti og góður andi. Það voru allir greinilega að skemmta sér konunglega og það var tekið mjög vel á móti mér. Allir svakalega almennilegir og vinalegir.

Segir Anna Hafþórsdóttir sem gegndi nokkrum hlutverkum. Anna lék starfsmann KFC sem birtist í kjúklingafráhvörfum Steinda. Einnig lék keppanda í ungfrú ísland og dansara.

Anna þarf ekki að leita á náðir kjúklingastaðarins með vinnu því hún er með nokkur verkefni framundan.

Ég er að fara í hugmynda og handritavinnu með skemmtilegum hópi fólks og svo er leikhúsverk einning á dagskrá. Fyrir utan það er ég í 100% vinnu sem forritari.

Hafsteinn Vilhelmsson lék í einn af gestum í flugvélaatriði sem vakti mikla kátinu margra áhorfenda en hann segir reynsluna að vinnslu Skaupsins hafa verið mikilvæga.

Mér finnst öll reynsla mjög mikilvæg og að fá að taka þátt í þessu verkefni var einstaklega skemmtilegt. Þarna fékk ég tækifæri á að vinna með fólki sem hefur gríðalega reynslu af því sem það er að gera og öðrum sem hafa litla sem enga reynslu að státa sig af. Það mætti segja að ég væri einhverstaðar þar á milli.

Hafsteinn segir að senan sem hann kom fram í hafi kannski ekki krafist mikils undirbúnings.

En það var gott að hafa það sem ég hef lært í Kvikmyndaskólanum til að hjálpa mér í þeirri vinnu.

Mögulega bíður Hafsteins verkefni í byrjun árs.

Það á allt eftir að koma í ljós og mögulega einnig annað verkefni í haust. Annars er ég að vinna með börnum og unglingum í Breiðholtinu í kvikmyndagerð og leiklist sem er klikkað gaman.