Leiklistarnámið nýtist vel – Sandra Helgadóttir um heimildarmyndina “Lifað með sjónskerðingu”

Í vikunni sýndi RÚV heimildamyndina “Lifað með sjónskerðingu”. Framleiðandi myndarinnar er Sandra Helgadóttir og sá hún einnig um leikstjórn en hún útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands í desember síðastliðnum.

“Ég hef verið að einbeita mér að leiklistinni og koma mér á framfæri þar. Það er langt í frá auðvelt að komast inn í bransann en ég vissi það svo sem og bjóst við því.”

Leiklistarnámið hefur þó væntanlega nýst Söndru vel enda bendir vel unnin heimildarmynd hennar til faglegrar þekkingar á kvikmyndagerð þó leiklistin hafi verið hennar aðalfag í skólanum.

“Leiklistarnámið kom sér auðvitað vel hvað varðar það að vinna fyrir framan cameru. Okkur er líka kenndur grunnurinn í kvikmyndagerð svo að ég gat því einnig eftirunnið myndina upp að vissu marki.”

En hvernig kom gerð heimildarmyndar einmitt um þetta verðuga málefni.

“Ég var að klára 3. önnina í skólanum og þurfti að finna mér sumarvinnu. Ég er táknmálstalandi og hef aðeins komið inn fyrir Blindrafélgið sem aðstoðarkona stúlku sem er með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Ég ákvað að slá til og sækja um sumarvinnu hjá Blindrafélaginu og það má segja að ég hafi fengið hana því þáverandi formaður félagsins hafði samband við mig og spurði hvort ég gæti ekki gert fræðslumynd fyrir félagið sem myndi fræða almenning um blindu og sjónskerðingu en um leið sýna fram á að blinda eða sjónskerðing er ekki endastöð í lífinu.”

Þessa dagana stendur Sandra í samningaviðræðum um gerð heimildar- fræðslumyndar en eins og oft geris eru ljón enn í veginum.

“Eins og þekkt er í ýmsum brönsum á litla Íslandi að þá eru peningar ekki á hverju strái. Ég hef mikinn áhuga á heimildarmyndum en ég stefni samt á að einbeita mér að leiklistinni og koma mér inn í þann bransa. Mig langar að koma mér inn í sviðslistina, þá að leika á sviði, því mér finnst ég eiga heima þar og líður hvergi betur en þar.”