Listaskólar starfi saman að eflingu listmenntunar
Í tilefni fréttar RÚV um væntanlega háskólayfirfærslu Kvikmyndaskóla Íslands og löngun Listaháskólans til að koma á fót námi í kvikmyndagerð, þá vill stjórn KVÍ leggja fram eftirfarandi sjónarmið
Kvikmyndaskóli Íslands hefur aldrei gert athugasemdir við áform Listaháskóla Íslands að koma á námi í kvikmyndagerð. KVÍ hefur boðið LHÍ samvinnu eða að vera í hvetjandi samkeppni. Starfsemi KVÍ sem háskóla er ekki sett til höfuðs kvikmyndakennslu í LHÍ eins skilja mátti á orðræðu rektors Listaháskólans.
Kvikmyndaskóli Íslands hefur lagt inn vandaða umsókn til Mennta- og menningarmálaráðherra. Það er á grundvelli þeirra gagna sem ráðherra, Gæðaráð íslenskra háskóla og sérfræðinganefnd mun meta Kvikmyndaskólann. Þess ber að geta að undirbúningur háskólayfirfærslu hefur staðið yfir í 10 ár. Hér að neðan eru tenglar á umsóknargögnin þannig að hver og einn getur kynnt sér þau.
Varðandi stuðning kvikmyndagerðarmanna við nám í kvikmyndagerð við LHÍ þá er ekkert við hann að athuga. Kvikmyndaskólinn getur, og hefur fengið stuðningslista líka, en við tökum ekki þátt í slíkum leik gagnvart öðrum listaskóla. Látum nægja að benda á þá 50 kvikmyndagerðarmenn sem störfuðu sem leiðbeinendur og kennarar við skólann nú á haustönn, KVÍ er einn stærsti vinnustaður kvikmyndagerðarmanna og leikara í landinu og iðnaðurinn vill ekki missa hann.
Listnám á verulega undir högg að sækja á Íslandi í dag. Í því ástandi eiga listaskólarnir að standa saman. Þjóðin stendur frammi fyrir stórum áskorunum. Kvikmyndaiðnaðurinn er atvinnugrein í uppgangi og með mikla möguleika. Kvikmyndaskólinn í samvinnu við Háskóla Íslands er tilbúinn að hefja BA nám í kvikmyndagerð strax í janúar. Allt er þetta í samræmi við stefnumótunarskýrslu ráðherra um háskólamenntun í kvikmyndagerð. Störfum saman.
Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands
Háskólagögn Kvikmyndaskóla Ísland
Eins og þau hafa verið send Mennta- og menningarmálaráðherra, og verða send Gæðaráði íslenskra háskóla fyrir áramót.
Hafa verður í huga að þessi gögn eru fyrst og fremst umsóknargögn til ráðuneytis. Í þeim er getið viðurkenninga sem ekki hafa tekið gildi enn, en óskað er eftir skjótri afgreiðslu ráðuneytis. Kvikmyndaskólinn undirbýr sig undir að hefja formlega starfsemi eftir því regluverki sem í þeim eru kynnt frá 11. janúar næstkomandi.
Gögnin skiptast í 3 hluta og eru tenglar í skjölin hér að neðan ;
KVÍ - Háskólakennsluskrá
Þar eru helstu breytingar þær að númerakerfi hefur verið samræmt kerfi Háskóla Íslands og eitt nýtt námskeið, "Heimspekileg forspjallsvísindi", hefur bæst við. Kennsluskráin er lykilgagn fyrir þá sem vilja kynna sér hvað raunverulega er í boði og um hvað starfsemin snýst.
KVÍ - Reglur og stefnur
Þar hefur regluverk skólans verið uppfært á háskólastig sem felur í sér margvíslegar breytingar, svo sem stofnun háskólaráðs . Að auki eru settar fram formlegar siðareglur skólans og gæðastefna.
KVÍ - Sjálfsmatsskýrsla nóvember 2020
Hér er grundvallarskýrsla háskólayfirfærslunnar með miklu magni af upplýsingum um starfsemi og gæðastarf Kvikmyndaskóla Íslands. Þeim sem vilja fá ítarlega umfjöllun og gæðagreiningu á háskólayfirfærslu Kvikmyndaskólans skal bent á fylgiskjal 16, með skýrslunni: Praktísk atriði til að greina stöðu við yfirfærslu á háskólastig. Að öðru leyti ættu allir, sem á annað borð hafa áhuga á starfsemi Kvikmyndaskóla Íslands og eða hvernig háskólayfirfærsla er framkvæmd, að finna eitthvað við sitt hæfi í skýrslunni eða fylgigögnum.
Einnig er vert að benda á kynningu okkar sem við birtum í október síðastliðnum ; Háskólayfirfærsla Kvikmyndaskóla Íslands
F.h. Verkefnisstjórnar háskólayfirfærslu Kvikmyndaskóla Íslands
Böðvar Bjarki Pétursson