Mynd Elsu G. Björnsdóttur, „Kári“ , vann nýverið til verðlauna á alþjóðlegri kvikmyndahátíð

Elsa G. Björnsdóttir er útskrifuð úr Leiklist frá Kvikmyndaskólanum og hefur gengið stórvel með stuttmynd sína, „Kári“. Við höfðum samband við Elsu og fengum að fræðast um ferlið, hugmyndina á bakvið kvikmyndina og hvað fékk Elsu til að hella sér út í kvikmyndalistina

Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með ástríðu fyrir leiklist og kvikmyndagerð. Vonlaust að svara því hvað heillaði mest, man bara að bakterían gersamlega helltist yfir mig þegar ég var c.a. 7 ára og fékk smá aukahlutverk í íslensku kvikmyndinni „Húsið“. Ég elska þessa vinnu bara einlæglega og þar sem ég fæ ekki næg tækifæri til að leika í verkum annarra, þá bý ég vinnuna bara til sjálf. Enda er þessi vettvangur kjörinn til að segja sögur á sjónrænan hátt, finnst bara verst að geta ekki verið bæði á bak við og fyrir framan myndavélina á sama tíma

Elsa hefur vakið mikla athygli á samfélagi heyrnalausra árum saman og er myndin hennar enn frekari fræðsla um aðstæður heyrnalausra áður fyrr

Stuttmyndin „Kári“ er í raun saman safn af annars vegar skáldskap og mörgum litlum sögum, bæði sannsögulegum sem og munnmælasögum úr döff samfélaginu, þ.e. samfélagi heyrnarlausra, sem þekkja öll það tímabil þegar táknmálið var bannað og fjölskyldur notuðu einhvers konar heimatilbúið táknmál í allra einföldustu samskiptin. Döff fólk sem búsett var úti á landi á þeim tímum man líka vel eftir því að vera rifið í burt frá fjölskyldunni án þess að fá skýringu, né hafa neinn skilning á því sem var að gerast. Aðstandendur, sérstaklega þá foreldrar, finna sum hver enn fyrir þeim erfiða sársauka sem fylgdi því að þurfa að senda börnin sín ung að árum suður á heimavist og geta ekki einu sinni gefið þeim útskýringu á hvað væri að gerast, en þeim sögum er líka mikilvægt að koma til skila svo þær endurtaki sig ekki

Upplifun Elsu af kvikmynda ferlinu var afar jákvæður og leystist vel úr öllum hindrunum

Ferlið gekk ótrúlega vel fyrir sig, til að byrja með var bæði undirbúningur og tökur eins góðar og hægt var að hugsa sér, enda var ég með stórkostlegan leikarahóp og tökulið, en þegar peningarnir kláruðust eftir tökur og grófklipp, þá varð allt stopp í nokkrar vikur og ég gat ekki klárað tónlist og hljóðvinnslu. Mér datt þá í hug að prófa Karolina Fund og athuga hvort fólk vildi styrkja myndina svo hægt væri að klára hana tímanlega fyrir umsóknarfrest hjá Clin d’Oeil hátíðinni, og það tókst á ótrúlega magnaðan hátt því tveimur dögum áður en söfnunin kláraðist vantaði enn 50% upp á að ná markmiðinu. Reyndar finnst mér allt við Kára hafa gengið skuggalega vel því það voru nefnilega nokkrir hlutir og atriði í kringum myndina sem ekki hefðu átt að ganga upp en bara gengu! Það fylgir henni einhver mögnuð lukka og ég trúi því að þessi mynd hafi bara átt að verða til alveg sama hvað, ég fæ nefnilega gæsahúð þegar ég hugsa um þetta ótrúlega ferli í heild.

Myndin hefur hlotið verðskuldaða athygli og verður án efa framhald þar á, enda vann hún verðlaun fyrir bæði besta leikstjóra og bestu mynd á Clin d’Oeil hátíðinni

Ferðalag „Kára“ byrjar meira að segja skuggalega vel, tvenn verðlaun á fyrstu kvikmyndahátíðinni sem hún er sýnd á, því átti ég engan vegin von á enda samkeppnin mun harðari í ár. Núna voru mun betri myndir auk þess sem fjöldi tilnefndra mynda var fleiri, þ.e. 14 flottar stuttmyndir og 14 leikstjórar, sem margir hverjir hafa mun meiri reynslu en ég, voru þarna að keppast um sömu verðlaunin. Ég get ekki ímyndað mér annað en að framhaldið verði gott hjá „Kára“.

Copyright Anthony Arrosères - Anthographe

Framtíðin er björt og ferðalag „Kára“ er alls ekki lokið

Myndin verður send næst á kvikmyndahátíð á Spáni ,en umsóknarfresturinn rennur út í ágúst og verður síðan frumsýnd í Reykjavík í haust ásamt því að vera bókuð á kvikmyndahátíð í Stokkhólmi í lok nóvember. Planið er að finna og senda hana núna á næstu vikum á enn fleiri hátíðir. Ég hafði því miður ekki tíma fyrr en eftir útskrift til að skoða framhaldið fyrir „Kára“ eftir að umsóknarfresti lauk á Clin d’Oeil hátíðina, því ég ákvað að setja B.A námið mitt í forgang og einbeita mér að náminu og því að útskrifast frá HÍ, en hlakka mjög mikið til þess að fylgja myndinni eftir núna.

Eins og áður sagði verður „Kári“ frumsýnd í haust og verður fræðandi að fylgjast með henni á næstu misserum, við óskum bæði „Kára“ og Elsu góðs gengis

Copyright Anthony Arrosères - Anthographe