Mynd Eyþórs Jóvinssonar, nemanda í KVÍ, valin Örmynd vikunnar í annað sinn

Eyþór Jóvinsson, nemandi á annari önn í deildinni handrit/leikstjórn lét sér ekki nægja að eiga örmynd vikunnar hjá Örvarpi Rúv, heldur var mynd hans Amma verðlaunamynd þemavikunnar heimildarörmyndir í þessari viku.
Á Facebooksíðu Örvarpsins er sagt að þetta sé í annað skipti sem mynd Eyþórs er valin örmynd vikunnar yfir sama tímabilið, og hefur slíkt ekki gerst áður í sögu Örvarpsins.  Við höfðum samband við Eyþór og báðum hann um að segja okkur frá örmynd sinni.

Fyrst og fremst langaði mig að taka upp jólin hjá okkur afþví að mér fannst þau svo kómísk, og sjálfsagt frábrugðin jólum flestra þar sem stórfjölskyldan kemur framan með tilheyrandi pakkaflóði og hasar. Á meðan jólin hjá okkur hafa mjög hátíðlegan og fallegan blæ, sem mér þykir vænt um.

Eyþór segir að frábærir kennarar og fagfólkið í hringiðu bransans hafi heillað sig í náminu í Kvikmyndaskóla Íslands til þessa.

Samhliða því að fá faglega kennslu frá virkum kvikmyndargerðarfólki byggir maður upp sterkt tengslanet í kvikmyndagerð á Íslandi.

Hann er þegar búinn að taka stefnu á ákveðin verkefni að námi loknu og vinnur hörðum höndum að því að láta þau verða að veruleika.

Ég hef notað námið í Kvikmyndaskóla Íslands til að vinna að tveimur verkefnum sem mig langar að framkvæma eftir námið. Þetta eru fræðandi barnaþáttasería og kvikmynd í fullri lengd. Að vinna að þessum verkefnum í umhverfi Kvikmyndaskólans og hafa aðgang að fagfólki í gegnum hann hefur reynst mér mjög dýrmætt. Annað verkefnið er nú þegar komið inn á borð hjá Kvikmyndasjóði Íslands, svo það verður vonandi hægt að fara á fullt í það að námi loknu.

Eins og áður sagði er þetta ekki fyrsta örmynd Eyþórs til að vekja athygli valnefndarinnar hjá Örvarpinu en í henni sitja Sindri Bergmann og Dögg Mósesdóttir.

Þetta var mínútumyndin mín Minnismiðar en hún var fyrsta verkefnið mitt í skólanum en hún var opnunarmynd örvarpsins í ár.

Kvikmyndaskóli Íslands óskar Eyþóri til hamingju með þennan frábæra árangur og munum við fylgjast spennt með honum í framtíðinni.  Myndina getið þið séð hér.