Mynd nema valin á Juilliard Art of the Score
Mynd nema okkar í Leikstjórn og Framleiðslu, Péturs Snæs Valgeirssonar, var valin af Juilliard skólanum til að vera hluti af dagskrá þeirra, "Art of the score"

Samstarf Kvikmyndaskóla Íslands og hins virta Julliard tónlistarháskóla í New York, sem staðið hefur yfir frá 2021, þegar Friðrik Þór Friðriksson var rektor og er í fullum gangi. Nú hefur mynd Péturs Snæs Valgeirssonar, "The Music of Eric Zann", verið valin í verkefnið "Art of the Score". Í því býður Juilliard upp á tveggja anna nám sem veitir tónskáldum tækifæri til að vinna með leikstjórum kvikmynda, sjónvarps, hreyfimynda og nýrra myndrænna og gagnvirkra miðla. Valin verkefni eru kynnt sem hluti af "Art of the Score", dagskrá stuttmynda og myndmiðla frá öllum heimshornum með frumsaminni tónlist eftir Juilliard nemendur.

The Music of Eric Zann
Ungur maður finnur sig umvafðan tónlist sem yfirtekur nætur hans. Hann leitar eftir höfundi tónlistarinnar og finnur sig þar í skrítnum heimi.


Myndin er byggð á smásögu eftir rithöfundinn H.P. Lovecraft og var lokaverkefni hans Péturs Snæs á 2.önn í desember síðastliðnum við deild Leikstjórnar og Framleiðslu.
"H.P. Lovecraft er uppáhalds rithöfundur minn og þessi saga frá honum er einnig í uppáhaldi. Ég las söguna þegar ég var unglingur, og eftir að ég komst inn í skólann hugsaði ég fljótt að ég vildi gera mynd frá einhverri sögu hans. Skólinn lét vita um þetta samstarf með Juilliard og þar sem myndin mín er mikið um tónlist hugsaði ég að hún myndi passa vel fyrir þetta. Allt fór mjög vel fyrir utan það að redda stað fyrir tökurnar þar sem ég vildi rými með viðar veggjum, það var ekki fyrr en svona viku fyrir tökur þegar ég fékk tökustað. Ég tek það fram að ég hefði ekki getað gert þessa mynd án tökuliðsins míns."

Myndin verður sýnd ásamt öðrum útvöldum í vor í New York og er mikill heiður fyrir bæði Pétur Snæ og framleiðsludeild Kvikmyndaskóla Íslands.

