Næsta verkefni Hrafnkels Stefánssonar, deildarforseta Handrita/Leikstjórnar, komið á flug

Hrafnkell Stefánsson er, auk þess að gegna stöðu deildarforseta Handrita/Leikstjórnar , störfum hlaðinn við verkefni utan Kvikmyndaskóla Íslands.  Hann vann að gerð handrita Borgríkismyndanna og nú hefur hann hafið vinnu að nýrri mynd. Hefur verkefnið hlotið heitið East by Eleven.

Verkið sem er í vinnslu er spennuvísindaskáldsaga, Science Fiction Thriller, úr nærliggjandi framtíð. Í þessum heimi er kerfi stjórnað af samtökum sem nefnast UNCC, en þetta kerfi getur endurbyggt minningar í raunveruleikanum og það gerir rannsóknarmönnum kleift að stíga inn í þær.

Hrafnkell segir að um sé að ræða  samvinnuverkefni  Poppoli teymisins; Olafs de Fleur, leikstjóra, Kristínar Andreu Þórðardóttur, framleiðanda og hans sjálfs ásamt fleirum úr Poppoli hópnum.

Ég hef átt mjög gott samstarf með Óla leikstjóra, og Kristínu, framleiðanda Poppoli.  Við erum ásamt fleirum teymi eða á margan hátt eins og lítil fjölskylda.  Ég hef starfað með þeim að helstu verkefnum Poppoli undanfarin ár. Þar á meðal eru myndirnar Kurteist Fólk (2011), Borgríki (2011) og Blóð Hraustra Manna (2014) ásamt fjölda annara verkefna. Sem hluti af Poppoli teyminu, mun ég starfa með þeim áfram um komandi ár.

Vinnan að fjármögnun East by Eleven hefur farið vel af stað því Nordic Genre Boost hefur þegar veitt verkefninu veglegan styrk. En það eru fleiri verkefni framundan hjá Hrafnkeli.

Það er ýmislegt í vinnslu og á mörgun stigum eins og gengur og gerist í ferli handritshöfundar. Maður er ávallt með verkefni á teikniborðinu á hinum ýmsu stigum þó fæst þeirra komist af fyrstu stigum vinnslu.  En það eru alltaf þessi eitt til tvö sem fara lengra og best er að hafa mörg járn í eldinum.  East by Eleven er hinsvegar eina verkefnið sem enn er hægt að ræða  opinberlega.