Nemendur Kvikmyndaskólans unnu að gerð táknmálsmyndbands

Táknmálsmyndband við lagið „I promised you then“ úr söngvakeppni sjónvarpsins hefur síðustu daga vakið verðskuldaða athygli en núverandi nemendur Kvikmyndaskólans, þau Sólveig Kanthi Engilbertsdóttir og Leszek Daszkowski tóku þátt í verkefninu ásamt Kolbrúnu Vökudóttur sem útskrifaðist úr leiklistardeild hans vorið 2015 tóku þátt í gerð myndbandsins.

Sólveig Kanthi Engilbertsdóttir sem er nemandi í leikstjórn/framleiðslu á 2. önn var meðframleiðandi og aðstoðarleikstjóri verkefnisins en Leszek Daszkowski á 2. önn var tökumaður. Kolbrún Völkudóttir þýddi lagið yfir á táknmál og saman klipptu Leszek og Kolbrún myndbandið.

Við Þórunn Erna erum búnar að vera vinkonur í nokkur ár og hef ég fengið að fylgjast með henni leika, syngja og leikstýra í gegnum árin þar sem ég hef lengi haft áhuga á leikstjórn, kvikmyndum og leikhúsi. Ég hitti Ernu Hrönn og Hjört fyrst í janúar þegar þau voru að taka upp myndböndin við lagið, „Hugur minn er“ eða „I Promised You Then“ eins og það heitir á ensku. Síðan þá hef ég fengið að fylgjast með nokkrum æfingum og aðstoðað við það sem ég get. Algjörlega ómetanleg reynsla og dýrmætt tækifæri.

Segir Sólveig sem stundar nám í framleiðslu og leikstjórn í Kvikmyndaskólanum eins og áður segir.

Ég hafði lengi haft auga á námi við skólann, en fór fyrst í Háskóla Íslands þar sem ég lærði faggreinakennslu grunnskóla og ætlaði mér að vera leiklistarkennari. Ég fór í skiptinám eina önn til Bandaríkjanna og tók þar meðal annars áfanga í handritagerð og leiklist og eftir það var ekki aftur snúið. Ári eftir útskrift frá HÍ hóf ég nám hér. Það er ákvörðun sem ég sé ekki eftir.

Sólveig segir kennarna í skólanum vera  fagmenn fram í fingurgóma og hún segist vita að hún sé á réttum stað til að komast inn í fagið en hvert hefur hún hugsað sér að stefna að námi loknu?

Eftir útskrift er að sjálfsögðu draumurinn að vinna við þetta, þetta er svo ótrúlega skemmtilegt og það er virkilega gefandi að sjá hugmynd verða að veruleika.