Nemendur LHÍ heimsækja rektor Kvikmyndaskólans
Í vikunni heimsóttu nemendur úr Listaháskóla Íslands Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands hér í skólanum en þau eru nemendur á námskeiði á meistarastigi Listaháskóla Íslands sem heitir Rannsóknir á íslenskri tónlist.
Nemendurnir á áðurnefndu námskeiði stunda nám í tónsmíðum við LHÍ og eru rannóknir og rannsóknarvinna hluti af því námi. Hjálmar H. Ragnarsson, fyrrverandi rektor LHÍ en hann kennir þann hluta námskeiðsins þar sem tónlist Jóns Leifs er í brennidepli og er lögð áhersla á greiningu á verkum hans og áhrif þjóðlagahefðarinnar. Hjálmar segir þátttakendur á námskeiðinu kynna sér ýmis gögn varðandi rannsóknir á lífi og störfum Jóns, og hafi þau m.a. heimsótt handritadeild Lansbókasafns – Háskólabókasafns, kynnt sér mismunandi rannsóknaraðferðir og hvernig rannsóknir geta orðið kveikja að öðrum verkum því tengd. Í þetta sinn heimsótti hópurinn Kvikmyndaskólann og rektor hans í sama tilgangi en kvikmynd Hilmars um tónskáldið, „ Tár úr steini“ flokkast undir rannsóknir á ævi Jóns Leifs.
Nemendurnir sem komu í Kvikmyndaskólann síðasta mánudag heita Adam Buffington, Birgit Djupedal, Sohjung Park, Tom Tukker og Vera Arnardóttir.