Ný stjórn Kvikmyndaskólans

Aðalfundur Kvikmyndaskóla Íslands var haldinn síðsumars og var þar kosin ný stjórn skólans.

Stjórnarformaður er sem fyrr Böðvar Bjarki Pétursson, en í stjórnina voru einnig kjörin þau Arnbjörg Sveinsdóttir, Ingimundur Sigurpálsson, Oddný Sen og Örn Pálmason.

Böðvar Bjarki, er stofnandi og aðaleigandi Kvikmyndaskólans, en rekja má sögu skólans allt aftur til 1992 þegar fyrstu námskeiðin undir nafni Kvikmyndaskóla Íslands voru haldin. Síðan þá hefur skólinn vaxið og dafnað og hefur skólinn útskrifað hundruð nemenda, en í vetur stunda 115 nemendur nám við skólann í fjórum deildum: Leikstjórn og Framleiðslu, Leiklist, Handrit og Leikstjórn og Skapandi Tækni. Umsókn Kvikmyndaskólans í samstarfi við Háskóla Íslands um viðurkenningu námsins á háskólastigi er nú til loka meðferðar í Menntamálaráðuneytinu.

Böðvar Bjarki var forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands árin 1992–2000 og stóð fyrir uppbyggingu safnsins. Hann hefur verið mikilvirkur framleiðandi kvikmynda og framleiddi nær 30 kvikmyndir, bæði leiknar kvikmyndir, heimildarmyndir og sjónvarpsþætti, á árunum 1990-2005.

Arnbjörg Sveinsdóttir gegndi þingmennsku fyrir Austfjarðakjördæmi og síðar Norðausturkjördæmi árin 1995–2009 undir merkjum Sjálfstæðisflokksins og var hún formaður þingflokksins 2005–2009. Arnbjörg sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1986–1998 og var forseti bæjarstjórnar 1994–1996. Hún var í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, formaður árin 1991–1992 og var á sama tíma formaður Landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Arnbjörg hefur verið mikilvirk í stuðningi við listir og menningu um land allt og átt mikinn þátt í uppbyggingu myndlistar í sinni heimabyggð.

Ingimundur Sigurpálsson er margreyndur í íslensku atvinnu-og viðskiptalífi og hefur gegnt fjölmörgum ábyrgðar-og trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Hann hefur einnig verið í forystuhlutverki á vettvangi sveitarstjórna sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Garðabæ, en hann lét af því starfi árið 2000, þegar hann tók við starfi forstjóra Eimskips. Frá árinu 2004 gegndi hann starfi forstjóra Íslandspósts, þar til hann lét af föstu starfi vorið 2019, en hefur síðan sinnt fjárfestingarverkefnum og stjórnarstörfum.

Ingimundur hefur setið í ýmsum nefndum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga og í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana. Þar má m.a. nefna formennsku í stjórn Samtaka atvinnulífsins, Isavia og Landsvirkjunar og stjórnarsetu í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, háskólaráði Kennaraháskóla Íslands, Flugleiðum og Símanum.

Oddný Sen Oddný Sen er kvikmyndafræðingur, rithöfundur og kennari. Hún lagði stund á nám í kvikmyndafræðum, kvikmyndasögu og kvikmyndagerð við háskóla í París og útskrifaðist með meistaragráðu og fyrri hluta PhD. Jafnhliða störfum sínum við Kvikmyndaskóla Íslands er hún verkefnastjóri kvikmyndafræðslu grunnskóla og framhaldsskóla í Bíó Paradís.

Hún starfar jafnframt við verkefnið Verðlaunahátíð ungra áhorfenda hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Örn Pálmason hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hann starfar sem framkvæmdastjóri Hjóla atvinnulífsins ehf. en sérhæfing hans við skólann snýr að umsýslu og rekstri húsnæðis skólans.

Hjól atvinnulífsins er fyrirtæki í margvíslegri sérsmíði og þjónustar m.a. fyrirtæki í myndlistar- og kvikmyndageiranum.