Nýtt fagstjórakerfi tekið upp hjá Kvikmyndaskólanum og frábært fólk komið til starfa


Í sumar hefur verið unnið að endurskipulagningu á kennsluskipulagi Kvikmyndaskólans með það fyrir augum að skerpa á sérgreinakennslunni og bæta þjónustuna. Í stað deildarforsetakerfisins sem verið hefur við lýði síðastliðin 10 ár, þar sem einn forseti er yfir hverri deild, hefur verið tekið upp fagstjórakerfi þar sem einn fagstjóri er yfir hverri sérgrein innan deildar. Þannig verða 2 til 3 fagstjórar í hverri deild, sem hafa það hlutverk að samhæfa námskeið, umsjón með vali kennara og leiðbeinenda og tryggja að lokahæfniviðmið hverrar sérgreinar skili sér til nemenda.

Fagstjórar Kvikmyndaskólans

Yfir fagstjórum er síðan námstjóri sem ber ábyrgð á stundarskrárgerð og samhæfingu fagstjórnar, kennsluáætlana og hefur umsjón með innri vef. Fyrirmyndina að þessu kerfi má finna í mörgum betri kvikmyndaskólum í Evrópu. Þetta mun ekki breyta því að áfram verður unnið með fjölbreytta flóru kennara í öllum faggreinum.

Unnið hefur verið að ráðningu fagstjóra undanfarnar vikur og mun því verða lokið í byrjun næstu viku. Búið er að ganga frá ráðningu í flestar stöður og við fögnum því að tekist hefur að fá frábært og reynslumikið fólk í stöðurnar. Hér skal talið upp það sem þegar hefur verið gengið frá ;

Hilmar Oddsson, fráfarandi rektor verður fagstjóri “Leikstjórnar”
Hlín Jóhannesdóttir, fyrrum deildarstjóri 2014-2016 í Leikstjórn/Framleiðslu verður fagstjóri “Framleiðslu”
Kjartan Kjartansson verður fagstjóri “Hljóðs”
Jakob Halldórsson verður fagstjóri “Klippingar”
Kristján U. Kristjánsson verður fagstjóri “Myndbreytinga”
Ottó Geir Borg verður fagstjóri “Tegundir handrita”
Gunnar B. Gunnarsson verður fagstjóri “Handrita í fullri lengd”
Þórey Sigþórsdóttir verður fagstjóri “Leiks og raddar”

Allt er þetta fólk í fremstu röð á sínu sviði með mikla reynslu í kennslu bæði hjá Kvikmyndaskólanum og víðar og spennandi að fá það til starfa. Eftir helgina verður tilkynnt um 3 fagstjóra til viðbótar og nýja rektorinn.

Það er sannfæring okkar að þetta nýja kerfi mun bæta þjónustuna og gæði skólastarfsins.