Ólöf Birna og “Hvernig á að vera Klassa Drusla”

Ólöf Birna Torfadóttir, útskrifuð frá Handrit og Leikstjórn hjá Kvikmyndaskólanum, lauk nýverið tökum á sinni fyrstu mynd í fullri lengd og við gátum ekki annað en fengið að forvitnast um ferlið

6

Hvaðan kom hugmyndin að myndinni? 

Hugmyndin að myndinni “Hvernig á að vera Klassa Drusla” varð fyrst til sumarið 2015. Ég var að vinna í SS á Hvolsvelli sumarið milli ára sem ég var í skólanum. Mikil færibandavinna og fáir jafnaldrar sem voru íslensku eða enskumælandi, svo ég var mikið ein með sjálfri mér og þar byrjaði hugmyndin fyrst að þróast. Upprunalega pælingin var að gera mynd um þessa tvo karaktera sem fengu nafnið Karen og Tanja. Þær eru pínu svona “expectation vs reality”. Hvað þú vildir að þú værir töff og svo hvað þú ert mikil lúði í raun og veru dæmi. Það er það sem myndin svolítið fjallar um. Karen að kenna Tönju að vera kærulausari, frjálsari og ekki bundin við hvað öðrum mun finnast.

5

Ferlið við skrif handrits?

Eftir að hafa pælt og skrifað einhverja punkta niður yfir sumarið byrjaði ég svo að þróa handritið frekar á 3. önn í Kvikmyndaskólanum en þá áttum við í lok annar að skila fyrsta uppkasti af handriti í fullri lengd. Ég hélt svo áfram að þróa það á 4. önn en lagði það svo í smá dvala eftir skólann vorið 2016. Fyndið með þetta handrit að það var alveg sama hversu lengi ég leyfði því að liggja, í hvert sinn sem ég las það yfir og bjóst þá við einhverri hörmung eins og maður gerir, þá var það bara ekki raunin. Ég elska þetta handrit, hlæ alltaf jafn mikið og langaði alltaf jafn mikið að gera það að bíómynd. Ég fékk tækifæri til að fara með handritið á Les Arcs í gegnum Kvikmyndaskólann fyrir jól 2017 við mjög góðar móttökur erlendis. Þá eftir áramótin byrjaði framleiðslan meira fyrir alvöru.

12

Hvernig gekk að manna hlutverk og starfsfólk við myndina?

Það gekk furðuvel að manna í öll störf. Ég bjóst ekki við því að fólk væri tilbúið að stökkva í svona “low budget” verk. Ég var búin að tala við marga sem ég hef unnið með í kvikmyndagerð um þetta handrit síðan 2016 en þegar kom að því að manna í störfin hélt ég að kannski væri fólk komið meira inní bransann og hefði ekki áhuga lengur en nánast allir sem ég hafði samband við vildu vera með. Eins og hún Sunna Birgisdóttir súper sminka orðaði það; “Ólöf, ég hef beðið eftir kallinu í 2 ár, ég er um borð í druslulestinni”.

9

Hvernig gekk fjármögnun fyrir sig? 

Ég byrjaði fyrst ein og prufaði ýmislegt snemma 2018, að fá sponsa, hafa samband við allskonar fyrirtæki sem mögulega gætu fengið eitthvert auglýsingargildi í myndinni og allan þann pakka. Upprunalega stóð til að taka upp myndina sumarið 2018 en af því fjármagn gekk hægt varð því frestað. En allt gerist af ástæðu af því við hefðum ekki getað fengið betra sumar í þetta en núna 2019. Og eftir á hyggja í dag hefði ég ekki viljað flýta mér inn í þetta 2018. Í staðinn byrjaði ég með haustinu að hafa samband við allt liðið og fylla í stöður. Þá var ég búin að velja í aðalhlutverkin. Ylfu Marín í hlutverk Tönju og Ástu Júlíu í hlutverk Karenar. Svo er ég að vinna hjá Íslandspósti á Akranesi og akkúrat um áramótin 2018/2019 var sveitapósturinn að hætta hjá okkur eftir 40 ár í starfi. Ég stökk beint á það tækifæri til að geta byrjað að skoða staðsetningar um Hvalfjörðinn og Svínadal og þannig fann ég öll upptöku svæðin í Hvalfjarðarsveit. Ég fékk svo inn annan framleiðanda, hann Óskar Long, sem byrjaði strax að hafa samband við mögulega fjárfesta. Á þessum tímapunkti var nánast allt komið nema fjármagnið sjálft. Öll upptöku svæði, allt tökulið og leikarar, og búið að festa tökudaga sem spönnuðu frá apríl og fram í september. Um helgar og á frídögum svo fólk myndi ekki missa úr vinnu. Komin með gott tilboð á tækjapakka frá Kukl og Rent a lens. Svo var búið að gera “low budget” framleiðsluplan fyrir tökutímabilið sjálft og okkur vantaði svo lítið uppá, en samt of mikið til að geta það sjálf. Óskar gerði kraftaverk á mjög svo stuttum tíma sem hann hafði. Við enduðum á að fá sirka helming af fjármögnun frá fjárfestum, stofnuðum fyrirtækið MyrkvaMyndir og fengum einhvern yfirdrátt í banka út á það og sirka þriðjungur af myndinni endaði á okkur að leggja út sjálf en samt yfir fjögurra mánaða tímabil svo höggið var ekki eins mikið á okkur í einu.

7

Hvað kom á óvart við tökur?

Það sem kom mér mest á óvart er hvað þetta gekk fáránlega vel og hvað ég fékk gott tökulið með mér í þetta. Þetta er fyrsta bíómyndin í fullri lengd sem ég leikstýri. Áður hef ég gert stuttmyndir og maður er svo vanur að þurfa að redda öllu sjálfur og vera tilbúin að stökkva í hvað sem er en þetta var allt annað. Fólkið sem stóð að þessu var svo hjálplegt og ástríðufullt fyrir þessu verki og allir voru að tala saman innbyrðis og redda sér sjálfir. Ég man þegar við vorum að fara inn í annað tökutímabil og ég hafði gleymt að pæla í hárinu á leikkonunum fyrr en bara í vikunni fyrir næstu tökudaga. Ég dreif mig að hafa samband við alla en þá væru þær búnar að tala við hárgreiðsluna, búnar í litun og “touch up” og bara tilbúnar í tökur. Ég sat eitt kvöldið fyrir tökur svo eirðarlaus; búin að sækja tækin, búin að gera þetta litla sem ég endaði á að þurfa að gera og allt annað var tilbúið. Ég veit það á væntanlega að vera þannig en ég bjóst bara ekki við því svona fljótt, sérstaklega í svona “low budget” verki. Ég er gríðarlega heppin með tökulið og á þeim allt að þakka fyrir þessa mynd.

4

Það voru margir hlutir sem ég var mjög stressuð fyrir og sá fram á að gætu verið mikið vesen en það fyndna er að það voru allt aðrir hlutir og margir svona “litlir” hlutir sem voru töluvert meira vesen en maður hefði búist við. Sem dæmi vorum við í tökum í sauðburði og vildum ná skoti af leikkonunni taka á móti lambi. Það er ekki bara pantaður eitt stykki burður sí svona. Ég og Ásta mætum á fimmtudegi fyrir tökur til að æfa okkur aðeins en þá var bara ekkert að frétta. Ég var mjög stressuð að við myndum lenda í því á tökudeginum en þegar við mætum eru fimm kindur að fara að bera, leikkonan náði að æfa sig að taka á móti lambi þrisvar og svo náðum við tveimur tökum af henni að taka á móti. Þetta er dæmi um þessa stóru hluti sem ég hélt að yrði vesen, en svo dæmi um litlu hlutina. Fötu vandamálið mikla. Þú veist ekki hvað það er mikið vesen í lífinu að redda fötum í öllum regnbogans litum. Ég vissi ekki að ég hefði skrifað inn fötur í nánast hvert einasta atriði og “set dressan”, hún Lovísa Lára, var að bilast, af því hún vildi ekki vera bara með einhverja hvíta óspennandi fötu í hverju atriði. Svo hún var búin að hringja í alla í lífinu sínu til að spyrja hvort þeir ættu fötu og þá hvernig á litinn. Og þetta var alveg áframhaldandi vandamál allar tökurnar.

11

Einhverjar skemmtilegar frásagnir úr ferlinu?

Sumarið í heild var ótrúlega skemmtilegt og þvílíkt sem við vorum heppinn með veðrið, alla vega fram í september. En í fullri hreinskilni er það pínu í móðu þessa dagana. Er í gríðarlegu spennufalli. Nýjasta dæmið sem ég man sem var svona öðruvísi og skrítið, var þegar Óskar framleiðandi og félagi hans fór með 100 kílóa baðkar frá Reykjavík uppí fjall í Svínadalnum. Svo vorum við í veseni með hvernig við ættum að fylla baðkarið af vatni. Ég og Lovísa “set dress” enduðum á að fara í kolniða myrkri, kvöldið fyrir tökur, uppí fjall með tvær fötur (hvítar óspennandi fötur). En eina vatnsuppsprettan sem var nálægt var lækur sem var töluvert neðar í fjallinu. Ég veit ekki afhverju það virkaði sem góð hugmynd að fylla föturnar í læknum og keyra með þær, ekki einu sinni veg heldur svona næstum slóða, upp þverhníft fjallið. Eftir fyrstu tilraun notuðumst við frekar við polla og skurði sem við fundum nær karinu.

3

Einhver lærdómur sem þú tekur frá þessari reynslu?

Ég hef lært svo mikið af þessu ferli. Allt frá því hvaða kex er best að bjóða upp á á setti upp í hvað væri betri strúktúr til að fá sem mest út úr hverjum tökudegi. En fyrst og fremst langar mig að segja að ég hef lært að treysta meira á fólk og vera ófeimin við að deila með mér verkefnum. Ég hef lært mikið um sjálfa mig í þessu ferli. Númer eitt, ég get þetta. Ég hef rödd sem fólk hlustar á, ég veit hvað ég vil og ég veit hvað ég vil frá fólki á móti. Það að umlykja sig fólki sem hefur jafnmikinn eða meiri metnað og ástríðu fyrir verkinu en þú sjálf/ur er lykilatriðið. Ég hef hugmyndir og einhverja sýn sem ég gef út og fólkið tekur það skrefinu lengra og gerir úr því eitthvert kraftaverk. Búningar, hár, förðun, “set dress”, rammarnir; allt varð töluvert betra en ég hefði nokkurn tímann þorað að vona. Þessi mynd varð okkar allra, ég er sjúklega stolt af leikurunum og tökuliðinu, ótrúlega þakklát fyrir þeirra vinnu. Ég hef aldrei verið jafn sátt við myndefni eftir tökur og ég get ekki beðið eftir að sýna ykkur afraksturinn í bíó.

10

 

2

 

Hvaða ferli er nú eftir og hvenær megum við svo fá að njóta?

Myndin er núna í klippiferli, fer svo í hljóðvinnslu og litaleiðréttingu í lok október. Svo er planaður frumsýningadagur fyrstu helgina í apríl 2020.

8