Samstarf um kvikmyndanám á Indlandi

Nú í júní mánuði skrifaði Friðrik Þór Friðriksson rektor, undir viljayfirlýsingu um að Kvikmyndaskóli Íslands stæði fyrir námskeiðum í kvikmyndagerð á Indlandi, með tengingu við námið hér á Íslandi. Aðgerðin er tengd Indverska/Íslenska  viðskiptaráðinu og Dalip Dua sem verið hefur formaður þess og hefur haft forgöngu um málið. Forseti Indlands kemur í heimsókn til Íslands nú í september og þetta verkefni er eitt af þeim sem honum verða kynnt.

Kvikmyndaskóli Íslands hefur undanfarin ár verið að þróa og prófa alþjóðlega deild sem rekin er við hlið íslensku deildarinnar, þar sem kennt er á ensku. Skólinn hefur útskrifað nemendur frá Mexíkó, Bandaríkjunum, Færeyjum, Bretlandi, Indlandi og fleiri löndum. Þannig að nokkur reynsla er komin á starfsemina, en skortur á afgreiðslu viðurkenninga frá stjórnvöldum hér heima hefur staðið í vegi fyrir að hægt hafi verið að fara á fulla ferð í uppbyggingu. Það hefur verið bagalegt, því árlega berst mikill fjöldi umsókna víðsvegar að úr heiminum.  Nú sér hins vegar fyrir endann á þessum viðurkenningarferlum og stefnt er að því að fara á fulla ferð um áramót.

Indverskar kvikmyndir

Það er hins vegar ný nálgun að fara með námið til annarra landa, þó það sé auðvitað alþekkt meðal háskóla og sérskóla að setja upp upp útibú erlendis. Á Indlandi er mjög stór kvikmyndaiðnaður, einn sá stærsti í heiminum, með rótgróinni menningu. Kvikmyndaskólinn nálgast því verkefnið af mikilli hógværð. Styrkur Kvikmyndaskólans liggur í hönnun grunnnáms með breiðri sérhæfingalínu sem fellur að margvíslegu framhaldsnámi. Við erum því sannfærð um að við getum náð árangri á erlendri grund, sé undirbúningur réttur.

Þetta er spennandi verkefni og verður gaman að sjá hvernig það þróast.