Samvinna kjarnahópsins lykilatriði – Sindri Gretars ræðir um Punktinn

Sketsaþátturinn Punkturinn er þessar vikurnar til sýninga á Stöð 3. Þátturinn hefur vakið athygli en röðin á sér talsverða sögu.

Punkturinn var stofnaður af Tomma Rizzo meðan hann var yfir myndbandsnefnd Menntaskólans í Kópavogi. Hópurinn hefur stækkað á  árunum sem liðin eru frá stofnun, breyst og þróast mikið.

Upprunalega var þetta einkahúmor fyrir nemendur en breyttist fljótt í sketsaþætti. Nokkrir úr hópnum hafa stundað nám og útskrifast úr Kvikmyndaskóla Íslands en þar má helst nefna þær Þórunni Guðlaugs og Tönju Björk sem leika aðalhlutverk í þáttunum. Einnig voru tæknimenn eins og Árni Gylfason, Hallgrímur Jóhann Hallgrímsson og Elín Birna Gylfadóttir sem hafa unnið að þættinum. Frábært lið.

segir Sindri Gretars sem leikstýrir þáttunum en hann vinnur að gerð þáttanna ásamt Þór Þorsteinssyni. Sagan á bakvið Punktinn er raunar öll aðgengileg á Facebook-síðu þáttarins, fyrir þá sem hafa áhuga.

 

Ég kom ekki í hópinn fyrr en 2008 og tók hægt og hægt við af öllum helstu stöðum framleiðslunnar. Frá 2008-2010 sá ég bókstaflega um allt tæknilegt sjálfur. Framleiðslan var þó ekki alltaf í gangi, til dæmis var 2009 algert frí ár fyrir Punktinn. Svo byrjaði þetta alltaf aftur með ákveðinn “reboot” fíling. Viljinn okkar í kjarnahópnum var ávallt að koma þessu eins langt og við getum og ég held að þessi sería endurspegli það.
Sindri segir það hafa verið lykilatriðið við þróun vinnunnar að búa að góðu fólki en þannig hafi framkvæmdastjórinn og aðalframleiðandinn Egill Viðarsson í hópinn árið 2012.

Án hans hefði serían einfaldlega aldrei orðið að veruleika. Þökk sé honum náðum við að kreista óeðlilega miklum framleiðslugæðum út úr litlu fjármagni. Þór Þorsteinsson aðstoðarleikstjóri og yfirmaður eftirvinnslunnar á sömu orð skilið og þeirra þáttaka hefur reynst ómetanleg. Svo eru aðrir eins og Viktor Aleksander Bogdanski sem hefur verið aðaltökumaðurinn í hópnum síðan 2010 og margir aðrir sem hafa sett sinn svip á efnið og útlit þáttanna.

Samvinnu kjarnahópsins í hugmyndavinnunni segir Sindri vera lykilatriði.

Við hendum hugmyndum á milli okkar á fundum og þróum þær saman. Við erum mjög dómhörð á efni hvors annars og ef eitthvað er ekki fyndið þá er því hent í ruslið. Að minnsta kosti helmingurinn af hugmyndum mínum er hent út strax svo það er enginn heilagur í þessu ferli. Ég held þó að fyrirmyndir okkar séu almargar og ég á erfitt með að svara fyrir alla í hópnum. Þegar að húmor kemur þá er ég mikið fyrir South Park, 90’s Simpsons, Futurama, Rick & Morty og svo framvegis. Ég horfi ekki mikið til Íslands í sketsa eða grínmálum, Fóstbræður voru bestu sketsaþættirnir að mínu mati. Eina regla sem ég held í er að gelda ekki húmorinn í þágu þess að sýna pólitíska rétthugsun eða til að vera barnavæn.

Eins og áður segir er stór hluti teymisins úr Kvikmyndaskóla Íslands. Viðkoman í skólanum var ekki á sama tíma hjá þeim öllum en tengslin við skólann eru mikilvæg.

Það sem kvikmyndaskólar færa oft eru tengslanet, maður kynnist mörgum og þaðan fær maður fleiri sambönd og ef þú sannar þig í bransanum og stendur þig vel þá geturðu gert ýmislegt með þannig sambönd. Alveg eins og í hefðbundnu starfi – þú kynnist fólki og það metur þig eftir hæfni og persónutöfrum. Það sem skóli getur gert einnig er að opna vissar dyr, hvort sem að nýjum hugmyndum, hugmyndafræðum og jafnvel tæknilegum hlutum en það er auðvitað uppi manni sjálfum komið að nýta það.

Lykilmennirnir og aðal aðstandendur Punktsins, Sindri , Egill og Þór hafa sannarlega hug á að halda honum áfram.

En framhaldið fer eftir því hvernig þessi sería gengur. Hvort af því verður eða ekki er enn óljóst en að lokinni að seríunni  mun það án efa skýrast fljótt.

Sindri hefur nokkur ár unnið sem lausamaður í bransanum hér og þar.

Það vildi þannig til að þegar við fengum samning um að gera seríu hjá 365 þá var ég nýlega kominn í fullt starf hjá Silent Company. Ég tók þá erfiðu ákvörðun að hætta starfinu til að helga tíma mínum í seríuna. Annars tek ég að mér verkefni í myndatökum og stundum klippingu einnig. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef eytt svona miklum tíma, orðið heilt ár núna í eitt verkefni og þar sem ég er lykilhluti af framleiðslunni á öllum deildum þá hefur verið erfitt fyrir mig að taka pásu en ég ætla mér svo sannarlega að gera það eftir að serían er alveg búin.