Sesselía Ólafs, sigurvegari Frostbiter 2018

Frostbiter, Icelandic Horror Film Festival var haldin á Akranesi á dögunum og í flokki íslenskra stuttmynda hlaut Sesselía Ólafs fyrstu verðlaun fyrir mynd sína “Umskipti”. Myndin er framleidd af Önnu Sæunn Ólafsdóttur, sem útskrifuð er frá Kvikmyndaskólanum. Við náðum tali af Sesselíu og fegnum að forvitnast eilítið

Umskipti

 

“Umskipti” eftir Sesselíu Ólafs og Peter Callow

Þegar þrjár vinkonur fara í bústað á þrettándanum, gerast atburðir sem engan hefði órað fyrir þegar dularfullar verur úr íslenskum þjóðsögum blanda sér í leikinn, með afleiðingum sem eiga eftir að setja mark sitt á líf vinkvennanna.

 

 

 

 

 

 

Hvaða mynd fangaði þig fyrst í minningunni ?

Ég held að það hafi verið Fríða og dýrið, teiknimyndin. Ég sá hana í bíói þegar ég var 5 ára og ég var svo glöð að sjá brúneygða kvenhetju! En það sem hafði samt mest áhrif á mig var þegar dýrið dó, ég var óhuggandi. Þetta ár hafði ég misst uppáhaldsfrænda minn og ég held að þetta atriði hafi leyst úr læðingi allan þann sársauka. Umbreytingin í prins fór ekki vel í mig og ég vildi frá hlýja og góða dýrið aftur.

Hvað leiddi þig í kvikmyndagerð ?

Það að kvikmyndir eru frábær miðill fyrir sögur! Ég hef alltaf elskað alls konar frásagnarlist, hvort sem miðillinn er bækur, ljóð, lög, málverk eða leiklist, því það er hægt að finna eitthvað forvitnilegt í þeirri sögu sem hvert verk segir. Kvikmyndir eru að mínu mati einn aðgengilegasti miðillinn fyrir frásagnarlist og oft hefur mér fundist vanta fjölbreytni í þær sögur sem verið er að segja. Bæði hvað viðfangsefni og sjónarhorn varðar. Mig langar kannski pínu að leggja mitt af mörkum til að bæta það.

Umskipti

Hvaðan kemur hugmyndin að myndinni þinni, “Umskipti” ?

Mig hefur alltaf langað til þess að sjá þjóðsagnaarfinn okkar notaðan meira í kvikmyndagerð og hef velt því fyrir mér hver sé besta nálgunin á það. Fyrir nokkrum árum fór ég í bústað með tveimur vinkonum og það rann upp fyrir mér að þessi fortíðarógn sem álfar eru á mjög vel heima í heimi hryllingsmynda, enda margar þjóðsögur hryllingssögur í grunninn.

Hvernig gengu tökur?

Tökur gengu ótrúlega vel, enda hæfileikafólk hvert sem litið var. Það er alltaf frábært að vinna með Pete, meðleikstjóra mínum. Hann er svo jákvæður og einbeittur og elskar það sem hann gerir og það smitar út frá sér. Leikkonurnar; Ásta, Bergdís, Karen og Sandra voru líka allar stórkostlegar og það var frábært að sjá hvað þær smellpössuðu allar í sín hlutverk og líka saman sem hópur. Það var líka frábær stemning og samheldni hjá öllum á setti og það var ómetanlegt, sérstaklega þegar það var skítakuldi og dagurinn var langur. Það eina sem leit út fyrir að ætla að verða vandamál var að það fór að moksnjóa síðasta kvöldið og umhverfið gerbreyttist, en það kom ekki að sök þar sem við vorum búin að ná flestum útiskotunum. Reyndar varð það til þess að eitt álfaskotanna í myndinni varð enn dulúðugra en áformað var.

Umskipti

Hvað er það sem heillar við hrylling?

Það er góð spurning. Flestir taka tímabil þar sem þeir hámhorfa á hryllingsmyndir og ég man vel eftir því tímabili. Það er eitthvað við það hvernig hryllingur teygir ímyndunaraflið í allar áttir, spilar á djúpstæðar tilfinningar og ýtir á þau mörk sem maður hefur. Ég held að maður sé heillaður af því að kanna sín eigin viðbrögð og sinn eigin ótta við hluti eða aðstæður sem maður þarf vonandi aldrei að standa frammi fyrir. Minnir mann kannski líka á hvað maður er heppinn og hefur það gott.

Umskipti