Sjafnar Björgvinsson útskrifaðist frá Leiklistardeild núna um helgina
Sjafnar Björgvinsson útskrifaðist af Leiklistardeild með mynd sína “Kafteinn Kambur og Tryggvi blaðamaður”. Við fengum Sjafnar til að deila með okkur reynslu sinni
Það sem fékk mig til að sækja um í Kvikmyndaskólanum var nokkurn veginn köllun til að nýta hæfileika mína í annars konar lærdóm. Ég hafði stundað nám í Háskóla Íslands í eitt ár og komst að því að akademískt og bóklegt nám var ekki mitt viðfangsefni. Námið var í grunninn mjög erfitt og því vantaði meiri hreyfingu á minn lærdóm. Ég sló til eftir stutta umhugsun og ákvað að sækja um í Kvikmyndaskólanum. Ég hreinlega varð að fá einhverja tilbreytingu í námið og hreyfing og annars konar aktívar greinar voru kjörnar fyrir mig. Sú deild sem varð fyrir valinu var hiklaust Leiklist því að þá grein þekkti ég best til. Ég hafði áður í grunnskóla og framhaldsskóla stundað leiklist og hún virtist alltaf eiga vel við mig, heldur en annars konar nám. Leiklist hefur líka í langa tíð verið mjög hjartnæmt áhugamál og hvers vegna ekki að dýpka skilning sinn á viðfangsefninu? Líka að ef maður hefur áhuga á sínu námsefni er mun auðveldara að læra það og þá verður líka vinnan mun skemmtilegri
Ef ég vil fjalla aðeins um lokaverkefnið mitt þá gerði ég í stuttu máli flókna stuttmynd. Hún er ekki einföld því söguþráður hennar er óvenjulegur fyrir stuttmynd að vera, því handritið hentar betur fyrir kvikmynd í fullri lengd. Söguþráðurinn er þannig að blaðamann vantar frétt til að skrifa um og fær því leiðsögn frá frænda sínum sem er hausaveiðari til að fá fréttagrein. Frændi hans dregur hann með sér í fjársjóðsleit til að hafa upp á verðmætum grip og þurfa þeir í sameiningu að kljást við glæpamenn, lífshættulegar aðstæður og annað sem á vegi þeirra verða. Myndin er því með verulega marga vinkla því hún sækir innblástur í mörg mismunandi þemu og kvikmynda element. Hún er hrærigrautur af kvikmyndum eins og 50´s Noir, Gangster, Punk og Industrial Sci-Fi. Þess vegna varð undirbúningur að vera góður til að framkvæma þetta. Handritið fór því oft í gegnum mörg dröft til að það myndi vera gerilegt fyrir stuttan tökutíma og allt crew og fólk var ráðið eins og fljótt varð. Það var upprunalega pælingin en allt frá skrif handrits virðist allt hafa gengið brösulega til að framkvæma. Erfiðlega gekk að fá fáanlega leikara og hinir og þessir hlutir virkuðu alltaf seint. Það virtist svo ganga vel á endanum þegar við þurftum að fara beint í tökur. Náttúrulega mun eitthvað fara úrskeiðis á tökustað en því var reddað eins snöggt og hægt var svo allt myndi ganga upp. Það voru mörg location sem þurfti að tækla en þetta gekk allt saman upp þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem gengu á í gegnum þessa stuttmynd. Þrátt fyrir allt sem gekk yfir þá játa ég það að ég mun halda áfram að gera svona tegund af vinnu í framtíðinni
Eftir útskrift ætla ég að kanna frekari vinkla í þessum bransa og halda áfram að skapa eigin verk eins og myndbönd og önnur hljóðefni. Einnig að þjálfa frekar leiklistarhæfileika mína. Þetta er erfið vinna en eins og lokaverkefnið hefur sýnt munu alltaf verða erfiðleikar við að gera svona. Það er enginn bransi eins og skemmtanabransinn og það er svo ánægjulegt hvað hægt er að gera í honum, og margt eftirminnilegt sem ég man eftir að hafa verið í þessum skóla. Þau eru mörg „moment“ sem urðu í náminu eins og að setja upp sitt eigið leikrit fyrir fullum áhorfenda sal og semja eigin söngleik og syngja á sviði fyrir framan fólk. Ef ég vil segja frá einhverju ánægjulegu augnabliki þá er það þegar ég og krakkarnir í mínum leiklistarbekk vorum saman komin á seinasta kennsludegi og við áttum nokkra klukkkutíma eftir af deginum. Við settum á smá tónlist, og við fórum að dansa. Bara dansa. Bjuggum til okkar eigin söngleik bara á no-time, ég fann fyrir svo mikilli ánægju tilfinningu að vera staddur inn í venjulegri kennslustofu og bara dansa af svo mikilli ást fyrir listina. Verulega ljóðrænar lýsingar en það er leikhús fyrir mér. Þegar við losum okkur við hömlunar sem við höfum á okkur og sleppum okkur í sköpunarferlinu. Það er svo fallegt.
Kvikmyndaskólinn er orðinn mikilvægur og eftirminnilegur partur af lífi mínu og ég er mjög þakklátur að geta fengið tækifæri að fá að vera þáttakandi í honum á þessum árum sem ég var nemandi í honum
Við óskum Sjafnari innilega til lukku með útskriftina og fylgjumst spennt með áframhaldinu