Stöðug endurnýjun tækjabúnaðar Kvikmyndaskólans
Jón „Camson“ er tekinn til starfa
Jón Sigurðsson er nýr Tæknistjóri Kvikmyndaskóla Íslands, en hann hóf formlega störf þann 1. október sl. Gengið var frá ráðningu hans í ágúst og fjarstýrði hann tækja- og tæknimálum skólans í upphafi haustmisseris.
Staða tæknistjóra var laus eftir að Stefán Loftsson, sem stýrt hafði deildinni síðastliðin 5 ár, lét af störfum en við starfinu tók Jón, sem þekktur er undir nafninu Jón Camson, en hann er mikill happafengur fyrir Kvikmyndaskólann. Hann hefur áratugareynslu af því að fylgjast með öllu því nýjasta sem er að gerast í kvikmyndatökutækni og tengdum greinum, sem þjónustu- og sölustjóri til kvikmyndafyrirtækja og sjónvarpsstöðva, bæði hjá eigin fyrirtæki „Camson“ og hjá öðrum. Starfaði hann m.a. lengi hjá Nýherja.
En Jón er ekki bara bara tæknistjóri, hann er einnig framleiðslu- og rekstrarstjóri skólans. Sem framleiðslustjóri ber hann ábyrgð á að tæknilegir ferlar kvikmyndaframleiðslunnar standist álag og haldi góðum gæðum. Kvikmyndaskólinn er mjög stórt framleiðsluhús með 200 titla á misseri og yfir 30 bíómyndir í fullri lengd á ári. Sem rekstrarstjóri hefur hann umsjón með öllum kennslu- og vinnslurýmum skólans sem flutti nýlega að Suðurlandssbraut 18, þar sem framtíðarheimkynni skólans verða. Á sama tíma fjölgar nemendum hratt og vöxturinn verður enn meiri þegar IFS fer af stað. Stefnt er að því að skólinn nýti alla bygginguna á næstu misserum, en skólinn nýtir nú 2/3 hluta hússins. Það er því í mörg horn að líta hjá nýjum tækni-, framleiðslu- og rekstrarstjóra, enda er þetta ein af lykilstjórnunarstöðum skólans eftir að ákveðið var að Kvikmyndaskólinn starfi nú sem háskóli.
Tæki endurbætt og endurnýjuð
Í stuttu spjalli við fréttasíðuna sagði Jón að talsvert hafi verið bætt í tækjabúnað hjá tækjaleigu Kvikmyndaskólans að undanförnu, enda kappkostar skólinn að bjóða nemendum sínum upp á sem bestan tækjakost og einnig að þeir eigi kost á þeim hugbúnaði sem þeim gagnast best.
Einkum hefur verið bætt í kvikmyndatökuvélakost skólans og hefur sá búnaður verið endurnýjaður að talsverðu leyti sem og nauðsynlegir fylgihlutir. Nú á skólinn t.d. tvöfalt fleiri „pakka“ af tækjabúnaði fyrir útskriftarverkefni nemenda, en það markmið náðist með því að bæta við ljósabúnaði, prime linsusettum, focus stýringum og þráðlausum myndsendum auk fjölda annarra smærri hluta. Allar deildir skólans hafa aðgang að tækjaleigunni, en einnig er skólinn í nánu samstarfi við tækjaleigu KUKL.
Þá var nýlega endurnýjaður allur tölvubúnaður fyrir bæði mynd- og hljóðklippingu auk litgreiningar í svítunum á fyrstu hæðinni. Næsta verkefni er uppfærsla á hljóðupptökubúnaði skólans og framkvæmdir í hljóðupptökuverum.
Eitt tölvuver hýsi öll gögn skólans
Upptökustúdíóin á 1. hæðinni hafa bæði myndbrellutjöld, "green screen" aðstöðu og unnið er að því að bæta lýsingaraðstöðuna enn frekar. Á sömu hæð er undirbúningur fyrir förðunaraðstöðu langt kominn og einnig er unnið að uppsetningu búninga- og leikmunageymslu. Þá er unnið að standsetningu 20-30 sæta bíósalar, sem stefnt er að verði kominn í gagnið fyrir næsta misseri.
Hvað tölvur og tölvumál varðar segir Jón að samþætting á tölvubúnaði skólans sé komin í ferli og vonast sé til að í framtíðinni muni eitt tölvuver hýsa öll gögn skólans sem nemendur hafi aðgang að. Þar verði sá hugbúnaður hýstur sem nauðsynlegur er til kennslu í skólanum. Endurnýjun á tölvubúnaði skólans hófst nú á haustmisseri og er uppfærsla tækjabúnaðar í kennslustofum í gangi og þegar hefur fjöldi myndvarpa verið tvöfaldaður.
Skólinn hefur endurnýjað hugbúnaðarleyfin á flest forrit sem notuð eru í kennslunni; Adobe, Pro Tools og DaVinci, auk þess sem bætt var við nýjum hugbúnaði í hljóðkennslunni, Pro Sound Effects, sem er hljóðbrellusafn með yfir 800.000 hljóðbrellum.
Húsnæðismál
Á næstu vikum kemur í ljós hvað skólinn fær mikið af nýju húsnæði til afnota, en reiknað er með að 2. og 3. hæðin í bakhúsinu verði tekin í notkun í febrúar eða mars. Á næstu vikum munu stjórnendur einbeita sér að 1. hæð, anddyri og stúdíói, og 1. hæð í bakhúsi í tæknirýminunum, sem og að þjónusta vel kennslurýmin á 3. og 4. hæð í framhúsinu.