Stórkostlegt tækifæri fyrir útskrifaða leikstjóra frá Kvikmyndaskólanum hjá Les Arcs kvikmyndahátíðinni
Hrafnkell Stefánsson, deildarforseti Handrita- og leikstjórnardeildar, hefur tilkynnt um nýtt samstarf við Les Arcs kvikmyndahátíðina sem haldin er árlega í Ölpunum í Frakklandi. “Film School Village” verkefnið er spennandi vettvangur fyrir nemendur útskrifaða frá helstu kvikmyndaskólum Evrópu og nú mun Kvikmyndaskóli Íslands taka beinan þátt og velja útskrifaðan nemanda til að senda. Hrafnkell fræddi okkur um þetta magnaða tækifæri.
Kvikmyndahátíðin Les Arcs hefur boðið einum útskrifuðum leikstjóra úr kvikmyndaskólanum á “Film School Village” sem er samframleiðslu markaður fyrir kvikmyndir í fullri lengd og verður haldinn dagana 16.-19. desember næstkomandi. Sá nemandi sem verður fyrir valinu fær flug út á hátíðina, gistingu, mat, passa á hátíðina ásamt skíðapassa og fær svo tækifæri til að kynna verkefnið sitt fyrir mögulegum framleiðendum. Einnig má leikstjórinn taka með sér eigin framleiðanda, sem fær sömu úthlutun að undanskyldu flugfari.
Þetta er í fyrsta sinn sem nemandi frá Kvikmyndaskóla Íslands er boðið og við vonum að verði áframhald á þessu samstarfi næstu árin.
Hvað varð til þess að þetta samstarf hófst ?
Við höfum verið að auka alþjóðlegt samstarf undanfarinn ár, frá því við gengum í CILECT alþjóðasamtök kvikmyndaskóla, en þar sem við erum í hópi bestu 140-150 kvikmyndaskóla í heiminum. Þetta er ákveðinn gæðastimpill á námið, og þá nemendur sem útskrifast frá okkur, og opnar fyrir tækifæri sem þessi. Sem dæmi héldum við handrita vinnusmiðju með nemendum Kvikmyndaskólans og FAMU.
Hvað er Film School Village verkefnið ?
Film School Village er samframleiðslu markaður fyrir nýútskrifaða nemendur úr kvikmyndaskóla og miðað er við að þeir hafi útskrifast á undanförnum tveimur árum. Á markaðnum gefst þátttakendum tækifæri til að kynna mynd í fullri lengd sem þau hafa í vinnslu. Það inniheldur kynningu, ýmisleg tækifæri til að mynda tengslanet, ráðgjöf, vinnustofur og beina fundi með framleiðendum. Það eru um það bil 300 framleiðendur sem taka þátt í markaðnum og því mörg tækifæri til að finna réttu tengiliðina fyrir hvert og eitt verkefni. Svo veitir þátttaka aðgang að sýningum hátíðarinnar, ásamt skemmtunum og skíðapassa.
Hvað er verið að leitast eftir ?
Það er verið að leita að leikstjóra sem hefur á teikniborðinu kvikmynd í fullri lengd. Að lágmarki þarf að liggja fyrir ítarlegt treatment, en auðvitað því lengra sem verkefnið er komið á veg, því betra. Valnefnd innan skólans mun fara yfir verkefnin sem berast.
Hverjir koma til greina til að taka þátt ?
Nemendur frá Kvikmyndaskóla Íslands sem útskrifuðust frá maí 2015 til dagsins í dag og eru titlaðir leikstjórar. Það þýðir að nemendur sem eru að hefja nám á 4.önn í haust eru einnig gjaldgengir til þess að taka þátt. Ég veit um allnokkra útskrifaða nemendur sem hafa spennandi verkefni í burðarliðunum, sum sem urðu til í námi þeirra í KVÍ og er ég mjög spenntur að sjá hvaða nemendur og verkefni sækja um.
Hvernig skal skila inn verkefninu og hver er lokadagur þátttöku ?
Verkefni þarf að skila inn í síðasta lagi þann 31.ágúst næstkomandi, ítarlegt “treatment” og blaðsíðu um stöðu verkefnis, og mun valnefnd innan skólans skoða hvert og eitt og velja úr það sem þeim líst best á. Umsóknum skal senda inn á tölvupóstfangið hrafnkell@als1.broxford.shared.1984.is og tilkynnt verður um sigurvegara upp úr miðjum september.