Stuttmyndin „Skuggsjá“ eftir Magnús Ingvar Bjarnason hefur vakið verðskuldaða athygli

Magnús Ingvar Bjarnason er útskrifaður úr Skapandi tækni hjá Kvikmyndaskólanum og útskriftarmynd hans, „Skuggsjá“ var nýlega valin til þátttöku á Nordisk Panorama stutt-og heimildarmynda hátíðinni. Við fengum aðeins að forvitnast um hvaðan áhugi hans á kvikmyndum kom, um stuttmyndina og hans ferli í framleiðslunni.

Ég var rosalegt vídeóspólu-barn og sat heilu dagana fyrir framan sjónvarpið. Uppáhalds spólan mín var Moonwalker með Michael Jackson og Joe Pesci. Myndin var samanofin úr nokkrum tónlistarmyndböndum með Michael Jackson og þau voru svo tengd saman í söguþráð. Eins og allir ættu að vita þá voru tónlistarmyndbönd Jacksons oftast mjög súrrealísk og einstök og það heillaði mig svo mikið að spólan fór varla úr tækinu og mátti þola örugglega mörg hundruð áhorf.
Það er einmitt það sem heillar mig við kvikmyndagerð, hvernig við getum upplifað nýja og spennandi heima og víddir sem eru ólíkir raunveruleikanum, eitthvað sem að kitlar heilann og situr með manni eftir áhorf. Svo þegar ég varð aðeins eldri þá komu DVD diskarnir og á þeim voru oftast ‘’behind the scenes’’ og þá gat maður loksins fengið smjörþefinn af því hvernig myndir voru gerðar og ég hafði oft meiri áhuga á því heldur en myndunum sjálfum. Svo í grunnskóla bauðst mér að fara á stuttmynda námskeið hjá Baldvini Z, og þá var ekki aftur snúið.

Upphaf hverrar hugmyndar er mismunandi og Magnús finnur sig greinilega vel i samstarfi við aðra

Í upphafi var ég bara með svona ‘’concept’’ hugmynd en vantaði sjálfa söguna á bakvið hugmyndina. Þar sem ég hef lítinn áhuga á eða þolinmæði við að setjast niður og skrifa, en hef nú samt sem áður mjög gaman af því að kasta á milli hugmyndum, þá leitaði ég til samnemanda míns, Eyþórs Jóvinssonar og við unnum náið saman með handritið auk leiðbeinanda míns sem var Óskar Þór Axelsson.

Magnús Ingvar Bjarnason

Oft getur verið flókið að koma hugmynd í framkvæmd, en ferlið reyndist Magnúsi þægilegt

Þetta gekk bara skuggalega vel, ég hafði það að markmiði frá upphafi að hanna handritið þannig að ég þyrfti sem fæsta leikara, tökulið og tökustaði og reyna þá frekar að gera handritið áhugavert. Ég fékk Eyþór líka til að leikstýra þar sem ég var fastur á bakvið myndavélina og sem betur fer erum við báðir mjög skipulagðir og höfðum mjög góða heildarsýn á verkefninu svo að tökurnar gengu eins og í sögu.

Myndin hefur bæði fengið verðskuldaða athygli og hlotið verðlaun á kvikmyndahátíðum

Skuggsjá vann svo tvær innlendar stuttmyndahátíðir, bæði Gullmolann í stuttmyndahátið Kópavogs, og svo Frostbiter horror film festival sem haldin var í fyrsta skipti á Akranesi í fyrra. Svo var hún nýlega tilnefnd sem besta stuttmyndin á Nordisk Panorama sem verður haldi í Málmey í Svíþjóð í september

Og hvert er svo stefnunni heitið í kjölfar þessa?

Eftir útskrift ákvað ég að festa mig ekki í vinnu utan kvikmyndaiðnaðarins, því að ég vissi að það var það sem ég vildi vinna við. Sumarið og haustið tók ég þátt í sem flestum verkefnum sem mér bauðst, flest ólaunað þó, bara til að afla mér reynslu, þekkingar og sambanda. Sem betur fer átti ég smá afgang af námslánunum. Í dag þegar liðið er rúmlega ár frá útskrift þá er ég að vinna hjá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargatan sem tökumaður og klippari, en nýlega hef ég líka unnið að nokkrum stuttmyndum. Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að skipuleggja framtíðina, ég flýt bara einhvernveginn með straumnum. En draumurinn er nú samt að leikstýra annari stuttmynd og að fá að skjóta mynd í fullri lengd, en sá draumur gæti hugsanlega ræst í náinni framtíð.

Magnús Ingvar Bjarnason