Svo miklu meira en bara tæknin – Ólafur Fannar – deildarforseti Skapandi tækni

Skapandi tækni er sú deild sem notið hefur hvað mestra vinsælda í Kvikmyndaskóla Íslands. Í henni finna margir sinn vettvang enda um ákvafleg fjölbreytt og skemmtilegt nám að ræða sem gefið hefur útskrifuðum nemendum tækifæri frábær tækifæri til að starfa í kvikmyndagerð.
En hverjir eiga erindi í skapandi tækni? Við fengum Ólaf Fannar Vigfússon til að segja okkur frá deildinni.

Þessi deild er fyrir alla þá sem elska að nota tækni í kvikmyndagerð. Við leggjum áherslu á fjórar megin námslínur; Kvikmyndatöku, klippingu, hljóð og myndbreytingar. Myndbreytingar er samnefnari okkar fyrir tæknibrellur, grafík og litaleiðréttingu.
Þeir sem hafa áhuga á að sérhæfa sig í einhverju af þessu, eða öllu, ættu að sækja um nám í Skapandi tækni. Þessi deild hentar líka fyrir þá sem stefna á að verða leikstjórar en hafa auk þess áhuga á að kynna sér alla tæknivinnu og geta þannig verið meira sjálfbjarga í sínum verkefnum.

Segir Ólafur nemendur læra mun fleira um kvikmyndagerð en það sem einvörðungu snýr að tækninni.

Nemendur í Skapandi tækni læra líka handritagerð, leikmyndagerð, listasögu, ljósmyndun og svo fá þau náttúrlega tækifæri til að gera eigin stuttmyndir og heimildarmyndir.

En eins og Ólafur tók fram í upphafi viðtalsins skal ekki gera lítið úr því að námið í Skapandi tækni er mjög bundið við allt sem lýtur að notkun tækja og leiðir það hugann að aðgengi nemenda að tækjabúnaði skólans.

Við vorum að fá tvær nýjar vélar frá Black Magic Design, Ursa 4K og þær eru að skila ótrúlega flottu myndefni. Nemendur hafa verið að nota þær í útskriftarverkefni sín og einnig notuðum við þær í upptökur á Pilot sem við gerðum um daginn. Pilotinn er okkar stærsta samvinnuverkefni í skólanum þar sem allar deildir skólans koma að. Námið hérer mjög verklegt og byggir reyndar að miklu leyti á að nemendur vinna í samstarfi og það er einn af kostunum við námið hér tel ég, þannig myndast stemning og nemendur byrja að byggja upp tengslanet.Einnignotum við mikiðCanon vélar í hin og þessi verkefni. Eins höfum við góðan aðgang á að leigja upptökuvélar á góðu verði.

Ólafur bætir við að öllum nemendum standi til boða afnot af iMac-tölvum.

Við vorum t.d. að kaupa núna nokkrar nýjar 5K iMac-tölvur til að geta eftirunnið 4K efni frá a-ö. En að sjálfsögðu mega nemendur nota sínar eigin tölvur ef þeir vilja frekar. Við erum sífellt að bæta tækjakostinn og leggjum upp úr því að vera í takt við tímann í þeim efnum.

Eftirvinnsluforrit gegna stöðugt mikilvægara hlutverki í kvikmyndagerð nútímans en hvert er aðgengi nemenda að námsefni þeim tengdum?

Þar erum við mjög sterk og leggjum áherslu á að vera með það nýjasta í dag, ekki síst það sem bransinn notar. Við notumst við öll forritin frá Adobe; Premiere Pro CC, Photoshop og After Effects. Eins erum við líka með Final Cut fyrir þá sem vilja. Í hljóðvinnslunni notum við Pro Tools.

Myndbreytingalínan vekur forvitni spyrjanda en Ólafur segir hana vera nýja og hannaða til að nútímavæða skólann enn frekar.

Það má segja að þarna séum við að kenna alla tækni sem breytir myndefni á einhvern hátt. Á 1. og 2. önn erum við að kenna á After Effects og Photoshop en á 3.önn læra nemendur grunnatriði í myndbrelluforritinu Nuke. Að lokum leggjum við töluverða áherslu á að nemendur á 3. og 4. önn læri á litvinnsluforrið DaVinci Resolve. Í því ferli fá nemendur að litaleiðrétta efni, jafna lit og contrast og setja ákveðið “look” á myndefnið.

Ólafur segist aðspurður vera hæstánægður með úrval kennara í deildinni Skapandi tækni.
Við höfum á að skipa toppfólki í hverri stöðu. Kennararnir eru reynt fólk úr bransanum með mikla kennsluhæfileika. Hér eru og hafa verið kennarar á borð við Óskar Þór Axelsson, Gunnar Árnason, Kjartan Kjartansson, Valdísi Óskarsdóttur, Elísabetu Ronaldsdóttur, Jörund Rafn Arnarson, Baldvin Z og Besta.
Hann bætir við að auðvitað hafi mun fleiri kennarar komið að kennslu í deildinni en að nefna þá alla yrði endalaus upptalning.

Kennararnir hér eru einna ánægðastir með að ólíkt því sem gerist í öðrum skólum þar sem kennd er tæknivinnsla, þá eru nemendurnir hérna fyrst og fremst í þjálfum til að verða kvikmyndagerðamenn. Auðvitað eru nemendur að sérhæfa sig í hinu og þessu en fyrst og fremst náum við að útskrifa nemendur sem hugsa sem kvikmyndagerðarmenn sem setja sjálfa söguna í fyrsta sæti.

En getur Ólafur gefið gilda ástæðu fyrir því að fólk sæki um í tæknideild KVÍ frekar en annars staðar?

Ég myndi segja að við höfum á löngum tíma náð að byggja upp afar heildstætt tækninám. Við styðjumst við vandaða námskrá og höfum besta fólkið úr bransanum til að kenna. Hér leggjum við áherslu á að nemendur fái tækifæri að vinna með nýjustu myndvinnsluforritin og nú höfum við loks eignast myndavélar sem við getum stolt boðið nemendum til afnota. Það sem mestu máli skiptir er að nemendur sem útskrifast af tæknibraut hafa yfirleitt góða möguleika að fá vinnu eftir nám. Það er alltaf eftisóknarvert fólk sem útskrifast sem kvikmyndagerðarmenn með sérhæfingu á tæknisviði. Þannig að þeir sem standa sig vel í námi eiga góða möguleika á vinnu eftir nám. Rjóminn flýtur alltaf ofan á.