Tækifærin í framleiðslu barnaefnis – Hlín Jóhannesdóttir segir frá CINEKID hátíðinni
Framleiðendur og leikstjórar sem einbeita sér að barnaefni eru ekki ýkja margir á Íslandi og líklegt að þar séu tækifæri sem vert er að skoða nánar fyrir kvikmyndagerðarfólk. Afþreyingarefni fyrir börn og unglinga er í stöðugri þróun og tækninýjungar kalla á fleiri áskoranir fyrir þá sem vilja framleiða barnaefni. Kennsluefni og gagnlegar upplýsingareru í auknu mæli að færast yfir á myndrænt form og mikið verið að vinna með samspil myndefnis, samtala, ritmáls og verklegra tilrauna.
Í alþjóðlegu samhengi eru tækifærin mörg til samframleiðslu og dreifingarmöguleika, fjöldi styrkja eru í boði fyrir þá sem vilja gera myndefni fyrir börn og helstu kvikmyndasjóðir hafa yfirlýsta stefnu um að barnaefni fái sérstaka athygli og mögulega forgang.
Deildarstjóri leikstjórnar og framleiðslu fór á dögunum á kvikmyndahátíðina CINEKID sem haldin er í Amsterdam ár hvert. CINEKID er einnig vettvangur fyrir framleiðendur frá löndum heims, dreifingaraðila og sölu fyrirtækja til að bera saman bækur og kynna verkefni sín. Einnig er á CINEKID handritsvinnustofa þar sem nokkrir valdir handritshöfundar vinna í handritum sem ætluð eru börnum. Þarna var líka viðamikil ráðstefna þar sem fjallað var um framtíð kvikmyndagerðar fyrir börn í víðu samhengi og þar bar margt á góma og allt var það mjög áhugavert og upplýsandi.
Rætt var um áhorfendur framtíðarinnar og hversu mikilvægt er að skilja að börn nútímans lifa og hrærast í heimi afþreyingar og fjölmiðla. Mörg hver eru orðin flugfær á spjaldtölvur á þriðja aldursári og það er gríðarleg áskorun að halda í við þessar upprennandi kynslóðir og nýta tækifærin sem þessi nýja vídd býður og jafnframt átta sig á og gæta sín á hættunum sem þessu fylgja.
Innreið Youtube í afþreyingarheim barna virðist rétt að byrja og nokkur erindi komu inn á Youtube, kosti, galla og hvert stefndi. Mikið var fjallað um tengingu milli myndefnis, tölvuefnis og gagnvirks efnis og heill fyrirlestur var um hinn vinsæla leik Minecraft. Einnig var farið nokkuð vel í stöðu sýndarveruleika og helstu þróunar í þeim geiranum.
Á CINEKID eru kvikmyndir fyrir börn sýndar daginn út og inn í nokkrum kvikmyndasölum, svæðið er afmarkað og er eins og pínulítið þorp, göngugata liggur þar í gegn og þar eru sölutjöld og básar, matarilminn leggur um og börnin fá ýmistækifæri til að leika sér og sprella. Mikið er um manninn og greinilegt að hátíðin er vinsæl. Eitt af því mest spennandi á svæðinu er hið svo kallaða MEDIALAB, sem er fjölbreytt tilraunastöð í stóru opnu húsnæði þar sem börn geta prófað að “animera” leikstýra, kvikmynda og klippa, prófa sýndarveruleika, farið í gagnvirka tölvuleiki fyrir framan risatjald og svo mætti lengi telja. Sannkallaður ævintýraheimur sem öll börn ættu að geta notið sín í.
Þarna er vettvangur sem sannarlega er þess virði að skoða.