Þjónustusamningur menntamálaráðuneytis og Kvikmyndaskóla Íslands til þriggja ára tryggður

Á Þorláksmessu staðfesti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þriggja ára þjónustusamning milli menntamálaráðuneytisins og Kvikmyndaskóla Íslands en áður hafði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra undirritað samninginn.

Gildir samkomulag skólans til ársloka 2018 og mun það gjörbreyta stöðu skólans. Skammtímasamningar hafa frá árinu 2010 staðið öllu uppbyggingastarfi skólans mjög fyrir þrifum og hafa hindrað markvisst framtíðarskipulag. Samningurinn nú er sambærilegur við þá sem aðrir skólar starfa eftir.

Það er mikill léttir að þessari óvissu sé nú eytt og að nú getum við farið að einbeita okkur að skólastarfinu. Það er mikilvægt í þeirri spennandi uppbyggingu sem framundan er í íslenskum kvikmyndaiðnaði.

segir Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, en samningurinn tryggir skólanum um 80 milljóna króna árlega fjárveitingu. Skólanum er jafnframt gert að styrkja eiginfjárhagsstöðu sína um 20 milljónir með hlutafjáraukningu. Segir Böðvar Bjarki Pétursson stjórnarformaður og fulltrúi eigenda skólans að þegar hafi verið gengið frá fjármögnun hennar.
Samningurinn við menntamálaráðuneyti boðar mikil tíðindi fyrir Kvikmyndaskólann sem hefur starfaði í 23 ár og tryggir enn stöðu hans og kvikmyndagerðar á Íslandi. Ætla má að hér verði stigið gæfuspor í átt að eflingu greinarinnar.