TOPP 10 MÖST, frumsýnd 11.október

Ólöf Birna Torfadóttir, útskrifuð frá Handrit og Leikstjórn hjá Kvikmyndaskólanum, mun frumýna mynd sína "TOPP 10 MÖST" á föstudaginn 11. október

"Listakonan Arna er komin með leið á lífinu og ákveður að gera sér topp 10 lista yfir hluti sem hún vill gera áður en hún deyr. Hún heldur af stað í ferðalag þar sem hún hyggst enda á austfjörðunum. Á sama tíma er eilífðarfanginn Mjöll búin að komast að því að barnsfaðir hennar, sem býr á Egilsstöðum, vill að nýja konan ættleiði dóttur þeirra. Hún flýr því úr fangelsinu og á bensínstöð á leið út úr bænum finnur hún sér far í bíl Örnu. Þetta ólíkindar dúó þarf nú að vinna saman við að ferðast þvert yfir landið og fylla út topp 10 möst listann góða."

Við tókum spjall við Ólöfu Birnu og fengum að forvitnast um þetta nýja verk hennar

-Hvaðan kom hugmyndin að sögunni?

Ég byrjaði að fikta við hugmyndina 2018 og var þá karakter Örnu svona megin inntakið. Ég var komin með þessa hugmynd í kollinn af topp 10 lista, svona eins og bucket list og fannst það gæti verið góður þráður fyrir grín. Á sama tíma var ég að eiga mörg samtöl við náinn ættingja sem var að glíma við sjálfan sig, hann var í miðju greiningarferli en hafði verið mjög langt niðri undanfarin ár. Þegar maður á þessi samtöl líður manni voða vanmáttugri, mig langar að hjálpa en ég veit ekki hvað ég á að gera. Hugmyndin með Örnu byrjaði að dýpka aðeins þarna, hvað ef þetta væri hennar eigin listi sem hún stjórnaði sjálf hvernig og hvenær myndi enda. Mjöll kemur svo inn sem sprengjan sem eyðileggur öll plönin og setur hlutina úr skorðum. Ég hef oft líkt þessari mynd við sænsku myndina "Maður að nafni Ove" sem mér finnst frábær. Hún er um mann sem er búin að missa konuna sína og þráir ekkert heitar en að fara og vera bara með henni í eftirlífinu. Hins vegar er eitthvað par að flytja inn hinu megin við götuna og þau keyrðu flutningabílnum inná gangstéttina alveg upp að húsinu sem er stranglega bannað. Hann að sjálfsögði þarf að díla fyrst við þetta lið og kenna þeim reglurnar í hverfinu. Sá þessa mynd fyrir mörgum árum og fannst þetta svo vel gert. Þetta er svona mesti inspó fyrir hugmyndina að Topp 10 möst.


-Hvernig gekk ferlið frá skrifum að upptöku?

Byrjaði að rissa upp þessa hugmynd árið 2018. Man að ég fékk fyrsta handritsstyrkinn sumarið 2019 þegar ég var í tökum á "Klassa Druslu". Ég hélt svo áfram vinnu að handritsstyrk nr.2, fékk neitun, reyndi að fara með þessa hugmynd inná Handritssmiðju SKL 2019 minnir mig en fékk ekki inn þar. Þá leyfði ég því aðeins að liggja og vann að öðru á meðan. Svo tók ég þetta aftur upp 2021, fékk handritsstyrk nr.2 og með fyrirtækinu mínu MyrkvaMyndir fengum við handritsstyrk nr.3 einnig snemma 2022. Við vorum svo, að við héldum, tilbúin í tökur haustið 2022 en fengum ráðleggingar að fresta um ár, sem manni langar aldrei að gera en í þessu tilfelli var það blessun. Þá var ég búin að ráða Helgu og Tönju í aðalhlutverkin og við nýttum bara tímann, við byrjuðum að æfa senurnar meira út á gólf og fórum dýpra inn í handritið. Ég sótti aftur um handritssmiðju SKL og komst með það inn þar í það skiptið. Þetta var allt "meant to be" eins og þeir segja. Þannig í ágúst 2023 vorum við tilbúin. Tökurnar gengu gríðarlega vel og var það alveg augljóst að æfingin sem ég tók með leikkonunum sparaði okkur slatta af tíma á setti.


-Hvað réð leikara-og tökuliðs valinu?

Ég sá fyrir mér Helgu frekar snemma í ferlinu og eftir að hún komst í kollinn á mér þá kom enginn annar til greina í hlutverk Örnu. Ég var með áheyrnarprufur fyrir hlutverk Mjallar og þar bar Tanja af sem hinn helmingurinn í þessu dúó-i. Þær spila virkilega vel með hvor annarri og ég gæti ekki verið ánægðari með þeirra vinnu í verkinu. Mig vantaði tökumann, Dop, þar sem sá sem ég oftast vann með var upptekinn í öðru á þeim tíma, setti inn auglýsingu og hún Birta Rán svaraði. Við hittumst í kaffibolla en hún var minnir mig tveimur önnum á eftir mér í kvikmyndaskólanum, þannig ég þekkti hana þannig en ekkert persónulega, við höfðum ekki mikið unnið saman. En ég hef fylgst með henni og því sem hún er að gera og finnst hún frábært talent, þannig ég hugsaði afhverju ekki, ég held við munum smella og það er einmitt það sem við gerðum. Þetta var yndislegt samstarf okkar á milli.

-Hvernig gengu upptökur fyrir sig?

Það myndaðist einhvern óútskýranleg kúreka stemming á setti. Þá meina ég bókstaflega, fólk var kúrekar, það mikið að utanaðkomandi aðilar voru að spyrja hvort við værum að gera kúrekamynd. Þetta er ekki kúrekamynd. Þetta bara gerðist. Byrjaði allt á einum hnút sem strákarnir í camerudeildinni voru að læra, næsta sem ég veit eru þeir búnir að kaupa sér lassó og eru að æfa sig að “veiða” hitt og þetta. Yfirgefnir ljósastandar voru þar mest í hættu. Svo mætir einn með kúrekahatt, svo næsti og næsti og áður en ég vissi af voru við öll komin með hattana, í köflóttum skyrtum, gallabuxum, sumir með byssur aðrir með lassó. Einn var kominn með sporana á líka og þetta hætti ekkert eftir tökur. Það voru nokkrir aðilar sem tóku þetta með sér áfram, þetta er ekki lengur eitthvað grín á setti, þetta er orðinn lífstíll.

-Hvernig gekk eftirvinnslan?

Hægt til að byrja með en svo fengum við inn kempuna hana Elísubet Ronalds sem tók að sér að klippa myndina. Þvílíkur heiður að fá tækifæri til að vinna með henni. Hún er svo mögnuð, hún bara skilur myndformið, myndræna frásögn svo vel og virtist sjá bara strax hvernig þessi mynd ætti að leggjast saman sem var ótrúlega ánægjulegt að fá að fylgjast með. Eftir að klippið var komið byrjaði svo allt annað að rúlla og hefur gengið þokkalega vel að klára. Ég er mjög spennt eftir að þið heyrið tónlistina hennar Unu Stef. Hún gerir alla tónlist í þessari mynd sem er brilliant, setti hana á annað level.


-Hver er svo tilfinningin að verki loknu?

Ég er bjartsýn fyrir þessu. Ég trúi því að okkur hafi tekist að gera bara þokkalega góða bíómynd. Er mjög spennt að sýna hana í bíóhúsum landsins 11. október 2024.


-Og að lokum, átt þú einhver ráð til verðandi kvikmyndafólks?

Vertu 100% viss um að þetta sé eitthvað sem þú vilt og ert tilbúin að fara á eftir. Því þetta er ógeðslega erfitt, það er 100 nei á móti 1 já-i. Það er undir þér komið að láta hlutina gerast.