“Undirbúningur er rauður þráður í gegnum allt ferlið” segir Haraldur Bender um gerð útskriftarmyndar sinnar
Haraldur Bender undirbýr þessa dagana útskriftarmynd sína en hann lýkur námi úr deildinni Handrit og leikstjórn í desember. Útskrifarmyndin verður frumsýnd næstkomandi föstudag í Bió Paradís.
Myndin mín fjallar í grunninn um ástina en er umvafin hryllingi, eins og ástin getur oft á tíðum orðið.
Segir Haraldur um efni myndar sinnar.
Hugmyndin kom frá meðbróður mínum Haraldi Thorlacius og hef ég mótað hana síðasta eitt og hálfa árið.
Haraldur segir vinnuna að baki mynd sinni mikla.
Að búa til bíó frá upphafi til enda er heljarlinnar verk, frá því að hugmyndin fæðist yfir í marga langa daga að skrifa, endurskrifa og skrifa svo allt upp á nýtt. Þá situr þú eftir með handrit sem er beinagrind af því sem koma skal.
Eftir að handritsgerð lauk hófst undirbúningur með leiðbeinendum og segist Haraldur hafa farið tvisvar í gegnum lokaverkefnisnámskeiðið. Hann telur sig heppinn að hafa fengið að vinna með frábærum leiðbeinendum í Kvikmyndaskóla Íslands.
Hver leiðbeinandi hefur sína sérstöðu og allir höfðu áhrif á mig á sinn hátt en það sem stakk mig mest var að undirbúningur var rauður þráður í gegnum allt ferlið. Ég fór að ráðum þeirra og lagði mig allan fram í framleiðslu ásamt því að undirbúa tökur vel.
Haraldur leggur áherslu á hve mikilvæg vandvirkni sé, hún skili betri heildarmynd þegar komið er á leiðarenda.
Kvikmyndaskólinn hefur í raun kennt mér allt sem ég kann þegar það kemur að kvikmyndagerð. Ég hafði alltaf mína eigin sýn á hvernig bíó ég myndi vilja gera en það var Kvikmyndaskólinn og hans umgjörð sem kenndi mér að koma minni sýn á framfæri og stend ég í mikilli þakkarskuld við alla þá sem gáfu sér tíma í kenna og að útskýra fyrir mér.