Uppáhalds verkefnið það síðasta og drauma verkefnið það næsta
Natan Jónsson útskrifaðist frá Leikstjórn og Framleiðslu árið 2012 og hefur tekist á við mörg spennandi viðfangsefni síðan. Stuttmynd hans „Rimlar” er núna aðgengileg á Youtube
Áhugi hans á kvikmyndum vaknaði snemma
„Ég held að fyrsta myndin sem ég sá í bíó var „Who framed Roger Rabbit?“ Það að fara í kvikmyndahús var alltaf mikilvæg upplifun fyrir mig þegar fjölskyldan heimsótti höfuðborgina. Það var á tímabili ekkert bíó á Hornafirði og þótti mér ferðalagið alveg tilgangslaust ef ég fékk ekki að kíkja á nýjustu myndirnar sem voru í sýningum. Þetta batnaði síðan á Höfn sem betur fer þegar Sindrabíóið var opnað að nýju með sýningar á fimmtudögum og sunnudögum. Opnunarmyndin var „Jurassic Park” sem var frábært af því ég hafði einmitt misst af henni í Reykjavík. Var alveg að farast. "
„Ég og nokkrir æskuvinirnir lögðum síðan oft leið okkar á vídeóleigurnar og horfðum á allt sem við náðum að komast yfir og bölvuðum við Gylfa Pálssyni fyrir því að skipta sér af því hvaða myndir við vorum að horfa á. „Reservoir Dogs” og „Pulp Fiction” myndirnar hans Quentin Tarantino urðu rosalega vinsælar hjá okkur og þegar við sáum eldra liðið taka upp bíómynd á heimilismyndavél þurftum við að sjálfsögðu að apa eftir því og bjuggum til alskonar örmyndir sem við sömdum á staðnum en reyndum oftast að hafa þær í anda Tarantino minnir mig."
Góður aðgangur að mismunandi kvikmyndumm endurvakti áhugann
„Þegar ég flutti í bæinn þá lagðist þetta áhugamál mestmegnis af hjá mér því miður. En ég fékk vinnu á vídeóleigu þegar ég var 17 ára og var alveg sannfærður um að ég væri bara með bestu vinnu í heimi. Þetta sparaði mér allavega talsverðan pening sem ég hafði hingað til alfarið notað í að fara í bíó eða leigja vhs. Ég sakna þess þó að fara inn á leigurnar og rölta bara um í leit að einhverju nýju. Það var einmitt í einum svoleiðis leiðangri þegar ég horfði á „Evil Dead 2”. Þetta var á dvd og það fylgdi stutt „making of” heimildarmynd með í extras. Fólkið á bakvið tjöldin virtist hafa svo gaman af þessu að ég held að ég hafi ákveðið það þá að ég myndi fara út í kvikmyndageirann og ég reyndi alltaf að finna dvd myndirnar sem voru með „making of“ flipa í extras á disknum. Nokkrum árum seinna horfði ég á „Eternal sunshine of the spotless mind” og vissi að mig langaði líka að skrifa handritin að kvikmyndum."
Námið kveikti í honum þörf fyrir að skoða iðnaðinn á marga vegu
„Ég var frekar lengi að ákveða mig um að sækja um í KVÍ enda var sjálfstraustið mitt ekki upp á það besta. En þegar ég að lokum lét mig hafa það þá spurðist ég fyrir um brautirnar. Ég þekkti nokkrar manneskjur sem voru í skólanum eða búin að klára og ákvað út frá þeim samræðum að framleiðslubrautin hentaði mér best. En að lokum skipti það mig ekki svo miklu máli. Andrúmsloftið í skólanum fékk mig alltaf til þess að reyna að bæta mig á öllum stöðum. Tökur, klipping, handrit og að vinna með leikurum. Ég hafði áhuga á þessu öllu saman. Hlakkaði alltaf til að mæta í skólann. Síðan voru skólasystkinin svo skemmtileg. Þarna var allskonar lið og maður þekkti þau öll með nafni, sem var alveg sérstakt afrek fyrir mig. En ég eignaðist þarna góða vini sem ég er ennþá í bandi við í dag og við gerum einhverskonar verkefni saman á hverju ári. "
„En ég vildi prófa mig áfram í drama eftir kvikmyndanámið. Þetta var gott tækifæri til þess að vinna nánar með leikurunum og fara dýpra í þessar erfiðu tilfinningar sem fylgja sorginni. Ég var mjög heppinn með leikarana sem voru til í að hittast oft til þess að æfa þetta og voru dugleg að þróa karakterana. Við náðum öll vel saman og settum síðan upp leikritið „Samfarir Hamfarir“ tveimur árum seinna. "
Næst á dagskrá
„Það að hefja verkefni á „fade in“ og sjá það síðan verða að veruleika á tjaldinu er upplifun sem ég á erfitt með að færa í orð, eins kaldhæðnislega og það hljómar. En ég hef alltaf haft gaman af því að gera mín eigin verkefni. Þó að það er alltaf gaman að kíkja á sett hjá öðrum inn á milli þá finn ég mig alltaf betur þegar ég er að gera mína eigin sögu. Það er síðan búið að opna aðrar dyr fyrir mér eins og að skrifa og leikstýra tveimur leikritum. Síðan skrifaði ég og skrifaði og skrifaði. En hingað til er alltaf uppáhaldsverkefnið mitt síðasta verkefnið og draumaverkefnið næsta verkefni. Næsta er samt reyndar kannski aðeins meira spennandi en ég er að fara að leikstýra minni fyrstu mynd í fullri lengd. Þetta er glæpasaga sem ég þróaði með honum Sveinbirni Hjörleifssyni en hann útskrifaðist úr Kvikmyndaskólanum á sama tíma og ég af Handrit og Leikstjórn. Svo eru margir sem ég kynntist í skólanum sem koma að framleiðslunni. Flest af þeim unnu t.d. með mér við stuttmyndina „Rimlar“.
Vinna við fyrstu mynd Natans í fullri lengd er hafin og munum við auðvitað fylgjast með framgangi hennar. Við óskum honum og hans fólki góðs gengis og hér má njóta myndar hans, "Rimlar"