Urður, Verðandi, Skuld og Gunnar

Gunn­ar Örn Arn­órs­son var við nám hjá Kvikmyndaskólanum á deild Handrita og Leikstjórnar og útskrifaðist vorið 2018. Um þessar mundir er hann að skrifa kvikmyndahandrit með Ottó Geir Borg að mynd sem Andreas Prochaska, sem þekktastur er fyrir að hafa gert þættina “Das Boot” (2018), hefur í hyggju að taka upp hér á landi, nefnd “Dead End”. Við heyrðum í Gunnari nýverið og fengum að heyra af ferli hans.

Fyrsta minningin sem þú hefur um áhrif kvikmynda á þig?

Ég átti erfitt með svefn sem krakki og það var oftast útaf kvikmyndum, ef myndin var gleðileg þá spann ég fantasíur út frá því þar sem ég var í hringiðu ævintýrsins og ef hún var skelfileg þá var ég undir sæng grenjandi útaf martröðum. Ég fór að temja mér það að skipta um “draumaspólur” (VHS var ríkjandi á þessum tíma) þegar nóttin varð óbærileg og virkaði það yfirleitt.
Annars er fyrsta haldbæra kvikmynda-minning mín þegar ég sat í stofusófanum í handarkrika afa míns og horfði á dystópísku satíruna “Brazil” eftir Terry Gilliam.  Var hræddur og spenntur á sama tíma og yfir skelfilegustu partana setti gamli maðurinn alltaf hendina sína fyrir augun mín. Ég gat samt séð á milli fingra hans, sem ég og gerði, þó mig langaði það ekki.  Ég varð að vita hvernig færi þó það hræddi mig.   

Hvaðan kom hugmyndin að handritinu að “Dead End”? 

Hugmyndin er komin frá eðalmenninu, lyklaborðsfjandanum og læriföður mínum, Ottó Geir Borg.  Hann var búinn að henda í 2 bls. “synopsis” þegar hann fékk mig til liðs við sig til að þróa þetta áfram.  Við unnum með Urði, Verðandi og Skuld sem bakbein, með áherslu á djöfla fortíðar og uppgjör við þá svo að framtíð geti orðið til batnaðar.  Við fylgjum mæðgum á flótta undan föður stelpunnar sem leita skjóls í litlu þorpi á vestfjörðum við hjara veraldar hjá sjókonunni Urði, sem kallar ekki allt ömmu sína.  Móðureðlið er keyrandi afl í gegnum söguna.

Hvernig er ferlið við skrif ? 

Í sameiningu hjuggum við út úr sögumarmaranum 12 þúsund orða “treatment”.  Í framhaldi sendum við það út til Ingvars Þórðarsonar og Andreas Prochaska og vildu þeir fara með þetta lengra. Í framhaldi höfum við verið að hamra út handritið og erum við á lokametrunum þar.  

Það er ekki hægt að biðja um betri fagmenn í verkefnið en þá Ingvar Þórðar og Júlíus Kemp, sem eru framleiðendurnir (Kisi), og með Andreas í leikstjórnarsætinu.  Það eru allir mjög samstilltir og við munum vinna statt og stöðugt í því að gera þessa mynd eins góða og hægt er.

Einhver munur á að skrifa einn eða með samhöfundi?

Það fer auðvitað eftir því með hverjum er skrifað því það passa jú auðvitað ekki allir saman.  En að skrifa með Ottó hefur verið auðvelt. Nánast vandræðalega. Við erum með mismunandi stíl en smellum vel saman.  Það er alltaf endurgjöf á milli og það er jú það sem við þurfum þegar við skrifum, skilja egóið eftir heima og fá allt það sem er að handritinu beint í andlitið.  
Ottó kenndi mér við skólann og var vanur að gefa mér sannleikann óblandaðan.  En hann er sanngjarn og góður kennari, einn sá besti, en enn betri samstarfsmaður og það er minn heiður að fá að vinna með honum.  

Hvaða tón eru þið að leitast við að ná í handritinu?

Við erum að skrifa vestra með hasar og trylli.  En rauði þráðurinn er samt hið mannlega, sem tengir okkur öll. Ást.  Hvað við erum tilbúin að gera fyrir hana og hvernig við breytumst þegar við missum hana.  Venjulegt fólk sem er komið útí horn, landfræðilega og persónulega og þarf að takast á við skelfilegar aðstæður.

Hvernig reyndist skólinn þér og námið?

Þegar ég kom í skólann þá var ég bitlaus hnífur í skúffu bældra skálda.  Ég hafði aldrei þorað að taka af skarið og reyna að skerpa á hæfileikum mínum.  En skólinn reif mig út og með frábærum kennurum náði ég að öðlast færni og hugrekki til að notfæra mér hana.  Maður fær út úr náminu það sem maður leggur sig eftir. Með vinnusemi og þrautseigju hefst þetta, jarðvegurinn er til staðar en þú einn ræður hvað þú gerir við hann.  
Lærðu af kennurunum og samnemendunum.  Hjálpaðu til hvenær sem þú getur og biddu um hjálp um leið og þú þarft en án hræðslu við að mistakast, því frá þeim mistökum kemur yfirleitt mikil reynsla.  Það eru allir í þessu langhlaupi saman, þannig að hjálpist að.
Skólinn gaf mér ekki bara tól í verkfæratöskuna mína heldur nýja fjölskyldu, sem ég elska.  Ég veit ekki hvort ég hafi þakkað fyrir mig eftir að ég útskrifaðist vorið 2018, en ég geri það hér með.  Takk!