Útskrifaðir nemar úr KVÍ frumsýna eigið verk í Tjarnarbíói
Þórunn Guðlaugs og Natan Jónsson hafa í nógu að snúast þessa dagana en á fimmtudag frumsýna þau verkið Samfarir Hamfarir í Tjarnarbíói.
Þetta verk er búið að vera í hausnum á mér síðan fyrir þremur árum en Natan Jónsson kom inn í þetta ári seinna og erum við búin að vera að þróa hugmyndina og handritið saman hægt og rólega í tvö ár.
Þórunn segir að þeim hafi boðist residensía í Tjarnarbíói og það hefur orðið þeim mikil hvatning.
Þar er farið með okkur eins og gull! Hópurinn hefur stækkað ört síðustu mánuði og við erum núna með frábært fólk með okkur í þessu.
Þórunn útskrifaðist úr leiklistarbraut frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2010 en Natan Jónsson útskrifaðist úr skólanum tveimur árum síðar úr deildinni Leikstjórn/framleiðslu.
Við erum bæði höfundar verksins og eigendur Leikfélagsins Hamfarir, ásamt Dóru Lenu Christians, sem er að setja upp verkið.
Með Þórunni leikur Aðalsteinn Oddsson (Alli Odds) í Samförum Hamförum, útskriftarnemi leiklistardeildar KVÍ árið 2012.
Fyrir utan okkur sem komum úr skólanum þá er her af fólki í þessu, þar með talinn þriðji leikarinn, Ársæll Níelsson sem hefur leikið í fjölmörgum myndum tengdum skólanum.
Sýningarnar á verki Þórunnar og Natans verða fjórar í Tjarnarbíói; 21., 24., 29. og 31. janúar (kl.20.30). Aðgangsmiðinn er aðeins á 2.900 kr.