Vegna umfjöllunar Stundarinnar um Kvikmyndaskóla Íslands

Stjórn og rektor vilja byrja á því að rekja viðbrögð Kvikmyndaskóla Íslands vegna MeToo hreyfingarinnar og frásagna af kynferðisbrotum innan kvikmyndaiðnaðarins þar á meðal hjá Kvikmyndaskólanum.

Mánudaginn 27. nóvember birtust frásagnirnar opinberlega. Samdægurs var hafin vinna við að koma á viðbragðsteymi. Unnið var í samráði við stjórn nemendafélagsins um skipan. Tilkynning um nýstofnað viðbragðsteymi var tilkynnt nemendum miðvikudaginn 29. nóvember. Opinber viðbrögð skólans voru síðan  birt með fréttatilkynningum 1. og 4. desember. Ráðinn hefur verið utanaðkomandi fagaðili, hjúkrunafræðingur með reynslu og réttindi í málaflokknum, til að vera teyminu innan handar og fyrsti fundur hefur verið boðaður næstkomandi þriðjudag. Í framhaldinu verða kynntir verkferlar þar sem markmiðið er að uppræta allt sem getur flokkast undir kynferðisofbeldi í starfsemi skólans. Viðbragðsteymið mun einnig þurfa að meta hvernig farið skuli með eldri mál og í framhaldinu senda út tilkynningu, væntanlega í lok næstu viku.

Á því tímabili sem frásagnir ná yfir hafa verið á sjötta hundrað nemendur í skólanum og kennarar/leiðbeinendur um 160. Á þessu tímabili hafa komið upp margvísleg vandamál eins og gerist í skólastarfi og viðbragðsteymi, bæði vegna eineltis- og ofbeldismála hafa verið virkjuð, til að leiða mál til úrlausnar.

Þau mál sem fjallað er um í Stundinni hafa aldrei farið í formlega afgreiðslu innan skólans. Kvartanir sem bárust fyrir sjö árum virðast ekki hafa verið meðhöndlaðar með eðlilegum hætti. Stjórn skólans og rektor er mjög brugðið yfir lýsingum sem fram komu í greininni, þar sem eftir lýsingum að dæma var um algjörlega óviðeigandi framkomu að ræða hjá leiðbeinanda. Full ástæða er til að biðjast afsökunar á því að skólinn skyldi ekki bregðast við með fullnægjandi hætti þegar kvörtun barst. Þess verður að geta að viðkomandi leiðbeinandi starfar ekki lengur við skólann. Þetta mál verður hins vegar sérstaklega skoðað útfrá því hvað má af því læra.

Metoo boðskapurinn eru hörð skilaboð um að víða sé pottur brotinn í framkomu gagnvart konum í kvikmyndagerð. Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands og rektor eru meðvituð um þá ábyrgð sem hvílir á skólanum við að innleiða nýja og betri menningu. Kvikmyndaskólinn á að vera til fyrirmyndar enda uppeldisstofnun starfsfólks fyrir greinina. Skólinn tekur þessa gagnrýni mjög nærri sér og hyggst bregðast við henni með ákveðnum hætti. Tilkynnt verður um framgang málsins á næstu dögum og vikum. Nemendur á vorönn munu verða varir við breytt vinnubrögð.

Kveðja

Stjórn og rektor Kvikmyndaskóla Íslands