Verðmætt nám með atvinnutækifærum í Skapandi tækni – Jörundur Rafn, deildarforseti deildarinnar

Jörundur Rafn Arnarson, deildarforseti í Skapandi tækni á næstur orðið en ávarpið er úr lokahefti haustannar í Kvikmyndaskóla Íslands.

 

Nám við Kvikmyndaskóla Íslands er tveggja ára nám. Námið er góður undirbúningur fyrir þann starfsvettvang sem nemendur velja sér svo innan kvikmyndagerðarinnar. Kvikmyndagerð byggist á samstarfi ólíkra einstaklinga. Markmiðið er að skapa upplifun þar sem áhorfendur gleyma stund og stað. Til að þetta takist þarf tæknifólk sem hefur öðlast færni og skilning til þess að skapa þessa sannfærandi veröld.Skapandi tækni er framsækin deild með áherslu á upptökutækni og notkun nýjustu eftirvinnsluforrita sem völ er á. Deildin hentar jafnt konum sem körlum sem hafa áhuga á að vinna á skapandi hátt. Námið getur einnig verið sniðug leið fyrir leikstjóra framtíðarinnar sem auka vilja þekkingu sína á þessu sviði. Kennarar í deildinni eru reynslumikið fagfólk og verða oft mikilvæg tenging nemenda inn í kvikmyndageirann eftir námið.Deildin er byggð upp í kringum fjögur grunnfög; kvikmyndatöku, klippingu, hljóð og myndbreytingar (grafík, brellur og litvinnsla). Nemendur við deildina stunda einnig nám í ýmsum stoðáföngum s.s. leikmyndagerð, listasögu, handritagerð og ljósmyndun. Einnig eru sameiginleg kjarnafög með öðrum deildum skólans, eins og kvikmyndasaga og myndræn frásögn.Nemendur vinna fjöldann allan af verkefnum innan deildarinnar; heimildarmyndir, kynningarmyndir, stutttmyndir, endurgerðir á senum, ljóðrænar myndir án orða, og „pilot“ í samstarfi við fagfólk. Útskriftarmyndin er svo í formi stuttmyndar sem hægt er að nota til að koma sér á framfæri eða til sýninga á stuttmyndahátíðum hérlendis og/eða erlendis. Það er því óhætt að segja að nemendur fari í gegnum fjölbreytt nám. Sé áhugi, kraftur og dugnaður til staðar býður námið upp á mikla möguleika til framtíðar.Leiðir að loknu tækninámi eru fjölbreyttar. Margir hefja störf innan íslenska kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins, sumir hefja sinn eiginn rekstur en aðrir halda utan í framhaldsnám. Reynslan hefur sýnt að mikil eftirspurn hefur verið eftir fólki með góðan tæknibakgrunn á vinnumarkaðinum. Það má því segja að þeir sem útskrifast frá Kvikmyndaskóla Íslands hafi unnið sér inn verðmæta gráðu. Nálgist nemandi námið af metnaði og samviskusemi uppsker hann ríkulega.Jörundur Rafn Arnarson
Deildarforseti Skapandi tækni