Viðtal við Snævar Sölva

Kvikmyndin Albatross sem frumsýnd var fyrr í sumar hefur vakið mikla athygli og hlotið jákvæð viðbrögð gagnrýnenda. Snævar Sölvi Sölvason er útskrifaður nemandi úr Handrita- og leikstjórnardeild Kvikmyndaskóla Íslands en óhætt er að segja að hann sé maðurinn á bak við Albatross.

„Ég þurfti að komast í umhverfi þar sem ég gæti eytt tíma með skapandi fólki með brjálaðan áhuga á kvikmyndum.“ segir Snævar en hann segist þegar hafa verið með nokkrar hugmyndir af bíómyndum í skúffunni þegar námið hófst.

„En í ljósi þess að maður gerir ekki neitt einn í þessari listgrein lá beinast við að sækja sér tengslanet í kvikmyndanámi og varð KVÍ fyrir valinu þar sem ég hafði heyrt góða hluti.“
Snævar segir að það sem hafi gagnast sér mest var stöðug  gagnrýni á hugmyndir og þau handrit sem hann var að vinna í hverju sinni, bæði frá kennurum og samnemendum.

„Smátt og smátt náði maður betur tökum á forminu og það sparar manni óneitanlega tíma og gerir mann almennt að betri kvikmyndagerðarmanni.“

Í huganum segist Snævar löngu hafa verið orðinn kvikmyndagerðarmaður áður en námið hófst.

„En á meðan maður er ekki búinn að gera neitt þá er maður það ekki. Í stað þess að fá mér enn eitt skiptið sumarvinnu síðasta sumar ákvað ég því að gera frekar bíómynd. Ég vissi að ef ég ætlaði að gera myndina vel, þyrfti ég að einskorða mig við einfalda umgjörð enda peningar af skornum skammti fyrir unga og reynslulitla kvikmyndagerðamenn.“

Heimabær hins unga og stórhuga kvikmyndagerðarmanns, Bolungarvík, varð því strax fyrir valinu sem sögusvið.

„Þar vissi ég að ég gæti fengið „location“, mat og gistingu fyrir slikk. Mér var líka kunnugt að auðveldara er að láta ódýra mynd „lúkka“ vel ef hún gerist utandyra og sérstaklega ef náttúran er falleg. Fyrr en varði var ég byrjaður að skrifa sögu um golfvallarstarfsmenn í Bolungarvík sem þrá að elta drauma sína.“

Snævar er ekki í nokkrum vafa að útskriftarnemendur úr KVÍ standi saman og segir að sambandið milli nemenda að námi loknu sé gott.

„Minn árgangur er allavega mjög samheldinn og leitum við til hvors annars óspart. Það á eftir að sjást margt meira frá árgangnum sem hóf nám haustið 2012.“

Næsta verkefni Snævars er þegar komið í vinnslu.

„Sagan fékk styrk hjá Kvikmyndasjóð Íslands og er ég að leggja lokahönd á handritið. Svo byrjar boltinn að rúlla almennilega eftir það.“