Virkjum fólk til krefjandi starfa, bransanum til heilla – Sigrún Gylfadóttir um Brú inní bransann

Samstarfssamningur Kvikmyndaskóla Íslands við framleiðslufyrirtæki, Brú inní bransann, hefur þegar vakið athygli síðan tilkynnt var um hann á þriðjudag.

Ætla má að framtakið muni veita nemendum kjörið tækifæri til að fóta sig í íslenskri kvikmyndagerð. Eins og fram hefur komið er það nýr  kynningar- og framleiðslustjóri skólans,  Sigrún Gylfadóttir sem leiðir verkefnið og fengum við hana til að ræða við okkur um tilgang þess og markmið.

Tilgangurinn er að gera starfsþjálfunarsamninga við framleiðslufyrirtækin og sjónvarpsstöðvarnar. Við gefum útskrifuðum nemendum okkar þannig fyrsta tækifærið til að vinna við kvikmyndagerð með fagfólki og öðlast reynslu en án hennar ná þeir ekki að vaxa og dafna í greininni.

Samningurinn hefur verið í smíðum um skeið en það liggur beint við að spyrja Sigrúnu hvernig skólarnir og fyrirtækin hafi í hyggju að byggja umrædda brú?

Við framkvæmum þetta með því að vera í góðu samstafi við þessi kvikmyndafyrirtæki og sjónvarpsstöðvar og ekki síður með því að virkja  fólkið okkar til krefjandi starfa á sviði kvikmkyndagerðar, fyrirtækjunum og bransanum til heilla.

Sigrún bætir við að um sé að ræða 3-12 mánaða starfsþjálfunarsamninga en lengd þeirra er háð verkefnunum sem fyrirtækin eru með í vinnslu hverju sinni.

Hugsunin er að nemendur fái svo jafnvel störf í framhaldinu innan fyrirtækjanna ef þeir standa sig vel. Við munum fylgja þessu eftir af bestu getu og halda þessari brú gangandi eins og þörf er á.

Sigrún segir að um sé að ræða algjöra nýjung í samstarfi skólans við atvinnulífið en skólinn hefur áður lagt áherslu á mikilvægi þess að aðstoða nemendur á leiðinni út í fagið,  t.d. með vefsíðunni casting.is sem hefur verið starfrækt fyrir útskrifaða leikara skólans.

Við höfum verið að þróa þetta í nokkurn tíma og bindum miklar vonir við verkefnið í framtíðinni. Við höfum verið með styttri námskeið í starfsþjálfun á námstímanum  en þessi leið nú er viðbót. Hugmyndin er að styðja við nemendur sem eru að standa sig vel í náminu og búa til þessa brú inní bransann sem einskonar atvinnumiðlun.Við tökum slagorð okkar alvarlega, “við búum til stjörnur”, og þess vegna viljum við raunverulega styðja við bakið á útskrifuðum nemendum. Þeirra sigrar eru grundvöllur okkar sigra.

Við á kvikmyndaskoli.is munum að sjálfsögðu leyfa ykkur að fylgjast áfram með þróun verkefnisins og kappkosta að færa ykkur fréttir af þeim nemendum sem hafa náð árangri í starfi gegnum það.